Karen fór ein á vit ævintýranna

Karen Kristinsdóttir fór til Balí og Taílands síðasta haust.
Karen Kristinsdóttir fór til Balí og Taílands síðasta haust. Ljósmynd/Aðsend

Karen Kristinsdóttir er 22 ára Kópavogsmær sem fór ein á vit ævintýranna til Asíu síðasta haust. Karen keypti sér flug aðra leið til Balí og eftir fimm vikna dvöl þar fór hún til Taílands í mánuð. Á ferðalaginu kynntist hún frábæru fólki enda lagði hún áherslu á að vera opin og fara út fyrir þægindarammann.  

„Planið í fyrstu var að fara með vinkonu minni en það lá svolítið í lausu lofti og gekk því miður ekki upp. En ævintýraþráin mín var svo gífurleg að ég fór að lesa mér til um fólk sem hefur ferðast eitt og mér fannst það í raun ótrúlega spennandi svo einn góðan veðurdag í lok júlí bókaði ég mér flug og þá var ekki aftur snúið.

Ég var ein á ferðalagi allan tímann en á sama tíma aldrei ein. Þegar ég lenti á Balí fór ég beinustu leið í brimbrettabúðir og dvaldi þar í tvær vikur ásamt dásamlegu fólki. Ég eignaðist þar vini sem ég mun eiga að alla ævi og er í sambandi við sumt af því fólki mjög reglulega. Einnig fór ég á líkamsræktarbúðir þar sem ég sömuleiðis eignaðist dásamlega vini sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Svo var ég mikið að gista á hostelum þar sem maður kemst ekki hjá því að kynnast herbergisfélögum og svo framvegis.“

Karen fór ein en kynntist fullt af skemmtilegu fólki.
Karen fór ein en kynntist fullt af skemmtilegu fólki. Ljósmynd/Aðsend

Karen segir að hún sé mjög ákveðin og segir að það þurfi ansi mikið til svo að hún skipti um skoðun. Fólk var því ekki að reyna að tala hana af því að fara eina. 

„Mamma kom heim úr vinnu rétt eftir að ég bókaði flugið mitt út og þá tilkynnti ég henni einfaldlega að ég væri á leið á vit ævintýranna ein mín liðs. Fjölskylda mín og vinir sýndu mér svo ótrúlegan stuðning og í raun og veru öfunduðu mig hvað ég væri kjörkuð ef svo mætti segja.

Ég held að ferðalagið hefði orðið allt allt öðruvísi hefði ég ekki farið ein, það er erfitt að útskýra af hverju en þegar maður er einn þá spilar maður einhvern veginn allt eftir eigin höfði og gerir það sem mann langar til þegar mann langar til. Það er eitthvað sem ég virkilega elska.

Að sama skapi þarf maður að ýta sér út fyrir þægindarammann, taka frumkvæðið og vera opinn þegar maður er einn síns liðs. Það hefði verið ótrúlega auðvelt að bóka alltaf bara einstaklingsherbergi á hóteli, fara einn allt og opna sig aldrei fyrir öðrum en það væri nú bara sóun á þessu lífi sem maður er svo heppinn að fá að lifa.“

Karen kynnstist ólíkri menningu á ferðalaginu.
Karen kynnstist ólíkri menningu á ferðalaginu. Ljósmynd/Aðsend

Karen segir erfitt að velja eitthvað eitt sem stóð upp úr í ferðinni. 

Ég gjörsamlega kolféll fyrir Balí, það er erfitt að útskýra það fyrir þeim sem hafa ekki komið þangað en andrúmsloftið eru bara á einhverju öðru leveli, fólk svo ótrúlega vingjarnlegt, dásamlegur matur og gullfallegar strendur.

Maturinn á Balí er dásamlegur.
Maturinn á Balí er dásamlegur. Ljósmynd/Aðsend

Þetta var annað skiptið sem ég kom til Taílands en bærinn Pai sem er svokallaður „hippabær“ náði mér algjörlega. Það var eins og maður væri kominn á aðra plánetu. Menningin, fólkið, maturinn, umhverfið og allt saman var mjög svo ólíkt öllum öðrum stöðum sem ég heimsótti í Taílandi.“

Hvaða lærdóm tókstu með þér heim?

„Þessi tími var ekkert smá lærdómsríkur, skemmtilegur og krefjandi og verð ég ævinlega þakklát fyrir allar þær ógleymanlegu minningar sem ég eignaðist. Ég eignaðist dýrmæta vini alls staðar að úr heiminum, kynntist ólíkum menningarháttum og lærði að elska sjálfa mig meira en nokkru sinni fyrr. Ég lærði einnig á brimbretti, eitthvað sem allir ættu að prófa!“

Karen tekur einn dag í einu.
Karen tekur einn dag í einu. Ljósmynd/Aðsend

Komstu sjálfri þér á óvart á einhvern hátt?

Já ég held það sé enginn vafi á því, ég kom sjálfri mér virkilega á óvart með hversu góða ensku ég tala og fékk ég margar spurningar og hrós varðandi hana. Ég lærði að dæma náungann ekki fyrir fram og lærði að taka honum eins og hann er. Það er eitthvað sem við Íslendingar gerum ekki nógu mikið af. Einnig kom það mér á óvart hvað allt gekk einhvern veginn upp þrátt fyrir ekkert plan en ég er svolítið þannig, tek einn dag í einu.“

Karen eyddi löngum stundum á ströndinni.
Karen eyddi löngum stundum á ströndinni. Ljósmynd/Aðsend

Ertu strax byrjuð að skipuleggja næstu ævintýraferð? 

„Nei ekki beint en þetta var alls ekki mitt síðasta ferðalag, ég á eftir að koma víða. Víetnam, Cambodia, Laos, Ástralía, Japan, Indland og Maldíveyjar eru líklegast efst í huga. Einnig Indland og Afríka.“

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ég ætla að ferðast eins mikið og ég get innanlands, fara hringinn með vinkonu minni, fara í nokkrar sumarbústaðarferðir og bara njóta með fjölskyldu og vinum. Svo mun ég hefja nám í lok ágúst.“

„Að lokum vil ég hvetja alla þá sem dreymir um hvað eina að láta verða að því. Lífið er núna,“ segir Karen ánægð með að hafa látið verða af draumaferðinni sinni. Karen var dugleg að birta myndir og myndbönd úr ferðinni á Instagram og má skoða myndefnið í „highlights“ á Instagram-síðu Karenar. 

View this post on Instagram

two happy monkeys 🐵🙈🙉🙊🐒

A post shared by Karen Kristinsdóttir (@karenkristinsdottir) on Oct 11, 2019 at 1:53am PDT



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert