Þorpið Cinquefrondi á Suður-Ítalíu býður nú hús til sölu á aðeins eina evru. Þetta er ekki fyrsti bærinn á Ítalíu sem býður húsnæði á lítinn sem engan pening en sá fyrsti sem gerir það eftir heimsfaraldurinn.
Helsti sölupunktur Cinquefrondi er að þar greindust engin kórónuveirusmit í heimsfaraldrinum og vonast bæjaryfirvöld til að sú staðreynd laði tilvonandi íbúa að.
Cinquefrondi er staðsettur í Calabria-héraði og markaðsetur sig sem „Covid-frítt þorp“.
Tilgangurinn með því að bjóða ódýrt húsnæði er að laða til sín fleiri íbúa, en íbúum hefur farið fækkandi á svæðinu í nokkra áratugi.
„Að leita að nýjum eigendum fyrir yfirgefnu húsin er burðarliðurinn í fegrunaraðgerðinni sem ég hóf til að lífga upp á hluta bæjarins,“ sagði bæjarstjórin Michele Conia í viðtali við CNN Travel.
Tilboðið sem Cinquefrondi er ólíkt því sem gerist í öðrum bæjum, þar sem farið er fram á allt að 5 þúsund evra tryggingagreiðslu sem fæst endurgreidd ef kaupendur endurgera húsið innan þriggja ára. Cinquefrondi krefst þess aðeins að kaupendur greiði árlegt tryggingagjald upp á 250 evrur þar til endurbótum á húsinu lýkur.