Þótt margir ætli sér að ferðast innanlands í sumar er ekki óskynsamlegt að fara að huga að utanlandsferðum næsta sumars þegar skimanir og andlitsgrímur verða vonandi loks sem fjarlæg minning. Margir hyggja eflaust gott til glóðarinnar þegar sá tími rennur upp og því mælir Ferðavefurinn með því að vera fyrr á ferðinni að skipuleggja næsta sumarfrí en venjulega.
Af því tilefni tók Ferðavefurinn saman nokkur falleg gistiheimili í Frakklandi sem fá hjartað til að slá örar.
La Belle Vue er gistiheimili rekið af Svíum. Franski sveitasjarminn ræður þar ríkjum og hugað er að hverju smáatriði en gistiheimilið er í húsi sem byggt var 1857. Innréttingarnar eru vandaðar og rómantíkin er alls ráðandi en þar má finna frístandandi baðkör, antíkljósakrónur, rósótt veggfóður og skrautflísar svo fátt eitt sé nefnt. Gistiheimilið er í Neffiés í Suður-Frakklandi, sem er smábær sem einkennist af þröngum götum og gömlum byggingarstíl.
Gistiheimilið Les Rosees lætur lítið yfir sér en er ákaflega heillandi staður í 30 mínútna akstursfjarlægð frá Nice-flugvellinum. Alþjóðlegi hóteleigandinn Ori Kafri nefnir þetta sem eitt af best geymdu leyndarmálum sínum í viðtali við Condé Nast-vefritið og hann reynir að heimsækja staðinn reglulega.
Le Mas De La Treille er einstaklega fallegt gistiheimili í hjarta vínekranna Lirac og Tavel. Herbergin eru sex, þar af tvær svítur með einkaheitapott. Húsið, sem er frá 1820, er einstaklega fallegt og skreytt gróðri. Það er staðsett nálægt bænum Saint Laurent des Arbres og er í tuttugu mínútna fjarlægð frá Avignon.