„Við viljum laða fólk að miðborginni“

Hér er Björg Jónsdóttir ásamt samstarfskonum sínum.
Hér er Björg Jónsdóttir ásamt samstarfskonum sínum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Reykjavíkurborg hefur hleypt af stokkunum metnaðarfullu átaki sem miðar að því að bjóða landsmenn hjartanlega velkomna í miðborgina í sumar. Verkefnið hefur fengið yfirskriftina Sumarborgin og snýst m.a. um að skipuleggja áhugaverða viðburði og fegra miðborgina með ýmsum hætti, í góðu samstarfi við rekstraraðila sem þar er að finna.

„Við viljum laða fólk að miðborginni og lengja dvalartíma þeirra sem leggja leið sína þangað. Verið er að endurhanna og bæta svæðin í borgarrýminu og gera þau grænni og mannvænni, svo að fólk vilji stoppa, njóta, vera og upplifa,“ segir Björg Jónsdóttir. „Þá fá rekstraraðilar á svæðinu stuðning til að gera að veruleika viðburði sem þeir telja að borgarbúar og gestir muni hafa gaman af og glæði miðborgina lífi.“

Björg stýrir verkefninu ásamt Sæunni Ósk Unnsteinsdóttur en um er að ræða samstillt átak þar sem fjölmörk ólík svið í stjórnsýslu borgarinnar leggjast á eitt. „Við efnum m.a. til markaðsherferðar þar sem við hvetjum Íslendinga til að koma í borgarferð og minnum landsmenn á að í Reykjavík eru endalausir möguleikar til að njóta lífsins, fyrirtaksgisting í boði og öll sú þjónusta og afþreying sem hugsast getur.“

Þurfa ekki að eiga sérstakt erindi í miðborgina til að njóta hennar

Björg bendir á að heimamönnum hætti oft til að gefa sér ekki ráðrúm til að njóta miðborgarinnar með sama hætti og þeir gera þegar ferðast er til útlanda. „Fólk er svolítið gjarnt á það að heimsækja ekki miðborgina nema að eiga þangað eitthvert erindi, og halda svo rakleiðis heim frekar en að skoða sig betur um og eiga ánægjulega upplifun. En hvað gerum við t.d. þegar við ferðumst til Kaupmannahafnar? Jú, við röltum um miðborgina og rekumst á skemmtilegar búðir, förum kannski í eitt eða tvö söfn og borðum ljúffengan mat á góðum veitingastöðum. Þetta er líka hægt að gera í Reykjavík, og ef fólk lætur það eftir sér að skoða og njóta þá er heimsókn í miðborgina frábær upplifun.“

Benda má lesendum á vefsíðuna www.borginokkar.is þar sem m.a. er að finna ítarlegri upplýsingar um Sumarborgina og um ýmsa viðburði og hátíðir sumarsins. Af viðburðum tengdum Sumarborginni nefnir Björg t.d. ókeypis danstíma Kramhússins í viku hverri, pop-up jógatíma á götum úti og tónleika á vegum verslunar 12 tóna alla föstudaga. Þá verða árvissar hátíðir sumarsins á sínum stað, þótt sumar séu með breyttu sniði vegna smitvarnaraðgerða. Listahátíð í Reykjavík stendur yfir í sumar og fram á næsta ár, með ótal viðbuðrum hér og þar, og Hönnunarmars var að hefjast – eftir að hafa verið frestað í þrjá mánuði vegna kórónuveirufaraldursins – og hafa m.a. 40 hönnuðir lagt Hafnartorg undir sig og sýna þar sköpunarverk sín. Barnamenningarhátíð stendur líka yfir í allt sumar, Hinsegin dagar verða á sínum stað snemma í ágúst og Menningarnótt haldin hátíðleg í framhaldinu. „Í ár dreifist Menningarnótt yfir tíu daga frekar en einn og verður gaman að sjá hvernig það tekst til,“ segir Björg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert