Þetta er bara enn ein helvítis sveiflan eins og maður þekkir úr sjávarútveginum. Maður er eiginlega búinn að vera í krísustjórnun alla tíð þannig að þetta er ekkert nýtt.“ Með þessum orðum lýsir Róbert Guðfinnsson stöðunni á Siglufirði, en hann á og rekur Hótel Sigló og þrjá veitingastaði, einn á hótelinu sjálfu og tvo handan smábátabryggjunnar í bænum.
„Við löguðum okkur strax að þörfum Íslendinganna. Veitingastaðurinn Rauðka er núna kominn á fullt í pítsurnar og Hannes Boy er orðinn að ísbúð og kaffihúsi. Fólk er búið að vera sveitt í þessum breytingum en þetta kemur vel út og virkar,“ segir hann.
„Hótelreksturinn gengur líka ágætlega þótt það sé enginn peningur í þessu þannig lagað. Í júní var nýtingin 55% og í júlí eru bókanir komnar í 85%. Ágúst er með 55-60% og september lítur ágætlega út en það er ekki alveg að marka þessa mánuði því þetta breytist hratt.“
Róbert segir að róðurinn væri mun þyngri ef eiginfjárstaðan væri ekki sterk.
„Þetta er örugglega mjög þungt hjá þeim fyrirtækjum sem eru mjög skuldsett og það má gera ráð fyrir að veturinn verði mjög þungur víða.“
Hann segir að verð hafi lækkað um helming en að það komi ekki að öllu leyti fram í veltunni.
„Við höfum séð að þótt herbergin séu ódýrari er heildarreikningurinn ekki endilega lægri. Fólk gerir einfaldlega betur við sig. Veitingastjórinn hjá mér segir að hann hafi verið að selja tvær til þrjár góðar léttvínsflöskur á kvöldi hér áður fyrr en nú eru það kannski bara tvær til þrjár ódýrar flöskur. Íslendingurinn gerir vel við sig á ferðalaginu.“
Róbert segir að sennilega hafi verðlagning á hótelþjónustu hafi verið orðin of há á misserunum fyrir kórónuveiruna.
„Ég miða verðið hér heima einfaldlega við þjónustuna og verðið sem ég býst við að fá úti. Mér finnst ekki óeðlilegt að borga 230-250 dollara fyrir herbergi eins og við erum að bjóða upp á yfir háönnina og kannski 150-170 dollara utan háannar. En þegar verðið er komið í 350 til 400 dollara á nóttina er þetta orðið mjög skakkt.“ Spurður út í horfurnar segir Róbert að það megi búast við því að það taki allnokkurn tíma að ná fyrri umsvifum.
„Ég bjó í Bandaríkjunum í tíu ár og miðað við það sem ég skynja þar eru Bandaríkjamenn ekki að fara að ferðast í ár. Það er nær útilokað í mínum huga. Ég held að við munum sjá einhverja traffík að utan næsta sumar en ekki eins mikið og vonir standa til. Það verður ekki fyrr en sumarið 2022 sem við munum sjá þetta fara almennilega í gang aftur.“