Að fara í helgarferð til Egilsstaða er frekar góð skemmtun enda þrá flestir einhverja tilbreytingu yfir sumartímann. Flogið var frá Reykjavíkurflugvelli og klukkutíma síðar vorum við lent á Egilsstöðum þar sem bílaleigubíll beið okkar svo við gætum brunað á milli staða og reynt að sjá allt!
Svo keyrðum við til Seyðisfjarðar, löbbuðum um bæinn og hoppuðum frá okkur allt vit á ærslabelgnum í bænum. Það eru örugglega einhverjir sem líta á slíkan grip sem leiktæki fyrir börn en þessir ærslabelgir geta skemmt 43 ára gömlum konum mjög vel, sérstaklega ef þær eru nánast hættar að fara á djammið. Yngri syni mínum fannst þetta mikil upplifun og síðan við vorum í þessari ferð erum við að skoða ærslabelgi víða um land sem við höfum í hyggju að prófa.
Í þessari ferð fórum við líka til Eskifjarðar, Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Löbbuðum um og rannsökuðum svæðið, skoðuðum minnismerki um látna franska sjómenn á síðastnefnda staðnum. Við vorum dugleg að stoppa á leiðinni og skoða, anda og svo skiptumst við á að vera plötusnúðar í bílnum. Tónlist á ferðalögum er ekki síður mikilvæg en nesti enda kemur alltaf eitthvað nýtt í ljós þegar fólk ferðast saman.
Á milli bíltúra borðuðum við mikið af mjög góðum mat. Belgísku pönnukökurnar í morgunverðarhlaðborðinu á Icelandair hótel Hérað standa upp úr og líka hreindýrasteikin sem hægt er að fá þar. Þar borðuðum við líka kjúklingavængi, crème brûlée og ís með ávöxtum sem smakkaðist allt hræðilega vel. Svo fórum við í brunch á Skriðuklaustri og smökkuðum eina bestu frönsku laukböku sem við höfum smakkað en þar var líka hægt að fá hreindýrabollur, gómsætan fisk og lerkisveppasúpu sem er víst á barmi heimsfrægðar fyrir framúrskarandi bragð.
Áður en við lögðum af stað heim labbaði ég ein míns liðs niður að Lagarfljótinu, sem er fyrir neðan hótelið, og naut kyrrðarinnar sem þar var að finna. Næst ætla ég að stoppa lengur því ein helgi á Egilsstöðum og nágrenni er alls ekki fullnægjandi!