Stuðlagil á Jökuldal austur á landi er orðinn einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi um þessar mundir. Þar sem Stuðlagilið er frekar nýuppgötvaður áfangastaður vita ekki allir nákvæmlega hvar er best að koma að gilinu.
Hægt er að koma að gilinu bæði austan og vestanmegin. Vestanmegin kemst þú ekki niður í gilið sjálft en hægt er að horfa niður í gilið. Samkvæmt vefnum East.is þarf að fara sérstaklega gætilega á þessum stað þar sem unnið er að framkvæmdum við útsýnispalla.
Hin leiðin er svo að aka að Klausturseli. Hér kemst þú ofaní gilið. Það er keyrt að brúnni hjá bænum Klausturseli, einnig eftir vegi nr. 923, um 14 kílómetra frá hringveginum. Ekki má keyra yfir brúna heldur er lagt á bílastæðinu vestan megin við hana, gengið yfir brúna og eftir slóða (rúmlega 5 kílómetra löng ganga) þangað sem hægt er að komast niður í gilið. Á leiðinni (um 2 kílómetra frá brúnni) er tignarlegur foss, Stuðlafoss, sem fellur fram af þverhníptu stuðlabergi. Þessi gönguleið er rúmlega 10 kílómetra löng samanlagt og þegar gert er ráð fyrir að stoppað sé við fossinn og gilið sjálft gæti hún tekið 3 tíma.