Fóru á fjórhjólum yfir Kjöl

Lilja og Magga Pála njóta sín vel á Akureyri.
Lilja og Magga Pála njóta sín vel á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Sigurðardóttir glæpasagnahöfundur ætlaði að verja sumrinu í Skotlandi en hyggst nú verja sem mestum tíma í garðinum sínum sem kalla má sannkallaða náttúruparadís. Hana dreymir um að endurnýja kynni sín við Þórsmörk.

Hvernig ætlarðu að verja sumrinu?

Á áætluninni hafði veri að verja sumrinu að mestu í garðinum heima hjá mér. Ég bý á frábærum stað við Elliðavatnið, umkringd náttúru og fallegum gróðri svo að mér finnst ég oft búa í sumarbústað. En auðvitað er ómissandi að fara aðeins út á land og við Magga Pála konan mín fórum að venju í kofann okkar uppi á Hólsfjöllum þar sem hún er alin upp. En til þess að komast þangað fórum við óvenjulega leið að þessu sinni en við fórum á fjórhjólum yfir Kjöl í góðum félagsskap. Það var ekki beinlínis leiðinlegt! Náttúran er nær manni á hjólinu en í bíl, þrátt fyrir nauðsynlegan hlífðarbúnað.

Röskuðust þín ferðaplön eitthvað vegna kórónuveirunnar?

Já. Við höfðum búist við því að verja talsverðum tíma í Skotlandi þar sem við erum alltaf með annan fótinn og svo átti ég að vera á nokkrum glæpasagnaviðburðum og kynningarferðalögum vegna bókanna minna en það féll auðvitað allt niður. Svo við ákváðum að vera að mestu heima í garðinum með einhverjum skottúrum út á land.

Hvernig ferðatýpa ert þú?

Ég er einhverskonar dularfullt sambland af ævintýra- og lúxusferðalangi. Ég er til að gera óvenjulega hluti og leggja dálítið á mig á ferðalögum en yfirleitt bara í stuttan tíma. Það er kannski aldurinn en ég kann æ betur að meta hótel.

Hvert dreymir þig um að fara?

Ég fór í skólaferðalag í Þórsmörk sem unglingur og væri alveg til í að koma þangað aftur. Íslenska hálendið heillar mig endalaust.

Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir á Íslandi?

Það er erfitt að nefna einhver einn stað. Hálendið með sinni endalausu víðáttu og útsýni til allra átta þar sem andinni verður frjáls til að svífa. Okkur Möggu Pálu finnst líka alltaf gaman að koma til Akureyrar. Hún er alin upp þar að mestu og ég á góðar minningar af sumrum og jólum þar með ömmum, öfum og frændfólki.

Hvað er nauðsynlegt að taka með í ferðalagið?

Kaffi á brúsa og tilheyrandi nesti. Það er fátt betra en að setjast einhvers staðar í grasbala og hlusta á fuglasöng og lækjarnið á meðan maður sötrar kaffið sitt og leyfir huganum að reika. 

Lilja brunar um Kjöl á fjórhjóli.
Lilja brunar um Kjöl á fjórhjóli. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert