Margar fjölskyldur ferðast nú um landið á húsbílum en líklega eru fáir sem væru til í að búa árið um kring í einum slíkum. Bandarísku hjónin Mars og Ahsley Fite hafa búið í sendiferðabíl sem þau innréttuðu sjálf síðan árið 2017 og líkar lífið á vegum úti vel.
Hjónin búa í heimatilbúna húsbílnum ásamt börnum sínum tveimur og hundi að því er fram kemur á vef Insider. Hjónin halda einnig úti vinsælli instagramsíðu þar sem þau sýna frá óvenjulegu lífi sínu. Áður en hjónin ákváðu að búa í bílnum ferðuðust þau mikið á milli viðburða og voru lítið heima. Eftir langa ferð fyrir nokkrum árum ákváðu þau að taka stökkið og innrétta sendiferðabíl.
Dóttir hjónanna er sex ára en yngra barnið, sonurinn Atlas, er aðeins sex mánaða. Hjónin voru dugleg að ferðast áður en þau komu sér upp nýja fararmátanum. Þau ferðuðust til flestra ríkja í Bandaríkjunum í bílnum sínum og nú hafa þau farið til þeirra flestra aftur á sendiferðabílnum.
Þau segja ekki alltaf auðvelt að ala upp tvö börn í svona litlu rými. Það hafi verið einfaldara þegar þau voru aðeins með eitt barn. Nú þegar börnin eru tvö er ekki hægt að fara í annað rými ef yngra barnið vaknar á nóttunni. Þau hafa þurft að laga sig að aðstæðum en segjast vera í þessu saman.
„Það eru margir sem útiloka að ferðast með börn,“ segir Ahsley og segir fólk tala um að ferðast þegar börnin verði eldri eða þegar það fer á eftirlaun. Hún og maðurinn hennar hafa hins vegar sýnt fram á að það er hægt að ala upp börn og ferðast á sama tíma.
Í sendiferðabílnum er búið að útbúa svefnaðstöðu fyrir alla fjölskylduna sem og eldhús. Inni í bílnum er klósett en ekki sturta en þau geta þó farið í sturtu úti. Þau eru einnig dugleg að baða sig á líkamsræktarstöðvum.
Það er ekki alveg ókeypis að búa í bíl og segja hjónin að þau eyði meira í bensín en áður. Þau hins vegar leigja út íbúð sína í Oklahoma og spara þannig peninga á meðan þau láta drauminn rætast.