Brúðkaupsferð Beatrice prinsessu og eiginmanns hennar Edoardos Mapellis Mozzis virðist ætla að vera lágstemmdara en almennt tíðkast hjá konungbornu fólki. Heimildir herma að þau séu í Frakklandi og ætli sér að keyra um landið. Það var glöggur ferðamaður sem kom auga á hin nýgiftu hjón í Suður-Frakklandi að keyra lítinn bíl sem var stútfullur af farangri.
„Það var óvænt ánægja að sjá þau,“ sagði ferðalangurinn. „Edo sat við stýrið og þau litu út eins og hvert annað par að njóta fallegs útsýnis.“
Heimildamaður nærri hjónunum segir að þau hafi ætlað að sleppa brúðkaupsferðinni en ákveðið svo á síðustu stundu að drífa sig til Frakklands. Þau eru mjög jarðbundin bæði tvö. Þá er talið að þau séu að skipuleggja ferð til Lamu-eyju nálægt Keníu, en fjölskylda Edoardos á þar hús.