Helgi mælir með göngu á Bolafjall

Helgi Hjálmtýsson hefur búið í Bolungarvík síðan 2012.
Helgi Hjálmtýsson hefur búið í Bolungarvík síðan 2012. Ljósmynd/Jón Páll Hreinsson

Helgi Hjálmtýsson, markaðs- og kynningarfulltrúi Bolungarvíkurkaupstaðar hefur búið í bænum síðan 2012. Helgi er einstaklega hrifinn af Bolungarvík og Vestfjörðunum í heild sinni. 

Helgi mælir með því að fólk klífi upp á Bolafjall í heimsókn sinni til Bolungarvíkur og rúnti að skoða Dynjanda. 

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Bolungarvík?

„Bolafjall er tvímælalaust uppáhaldsstaðurinn minn og þótt ég reyndi með þúsund orðum að lýsa því hvernig það er að upplifa heiminn af toppi fjallsins þá myndi það á engan hátt ná utan um þá mögnuðu upplifunin. Ég er aðfluttur til Bolungarvíkur, en uppalinn milli fjalls og fjöru á Vestfjörðum, svo ég er vanur fagurri fjallasýn og átti þannig séð ekki von á neinu nýju þegar ég fór þarna upp í fyrsta skipti. En þetta er engu öðru líkt og alveg ógleymanlegt, það ættu allir sem ferðast um Vestfirði að skreppa upp á Bolafjall eða jafnvel gera sér sérstaka ferð þangað.

Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að það stendur til að byggja útsýnispall á fjallinu sem gerir fleirum kleift að njóta útsýnisins þar við öruggar aðstæður. Fyrirhugaður pallur þykir það eftirtektarverð hönnun að módel af honum hefur verið á arkitektasýningu í Moskvu og í sumar verður módelið sýnt á Feneyjatvíæringnum.“

Bolafjall.
Bolafjall. Árni Sæberg

Hvar er best að borða á staðnum?

„Hér eru tveir góðir veitingastaðir, hvor með sínu sniði, Einarshúsið og Víkurskálinn. Á báðum stöðum er mikill metnaður lagður í eldamennskuna og hvergi slegið slöku við. Skotsilfrinu er nokkuð vel varið bæði í Einarshúsi og Víkurskálanum í Bolungarvík. Einnig er hér bókakaffi þar sem í boði eru léttari veitingar og gott kaffi.“

Ef þú hefðir 48 tíma í Bolungarvík, hvað myndir þú gera?

„Ég myndi gista í Einarshúsi sem er sögufrægt hús við höfnina eða gista á tjaldsvæðinu við sundlaugina og nýta mér þjónustuna þar. Ég myndi skoða höfnina og fylgjast með lífinu þar og bátunum. Ég færi í Sjóminjasafnið Ósvör sem er endurgerð gamallar 19. aldar verbúðar eins og þær voru við Djúp og á fleiri stöðum við Ísland. Svo er mikil upplifun að stoppa í Bjarnabúð sem hefur verið kaupmannsverslun sleitulaust frá 1927 og það er pínulítið eins og að ferðast aftur í tímann að koma þangað, þar fæst allt og þar myndi ég kaupa jólagjafirnar, einstök verslun á landsvísu og viðmótið skemmtilegt.

Ég myndi kaupa mér veiðileyfi í Syðridalsvatni og hjóla Óshlíðina. Ég gæti gengið á fjöll eða um láglendið eða farið í golf á Syðridalsvelli eða í frisbígolf. Ég gæti tekið mér tíma í líkamsrækt í íþróttahúsinu og fengið pössun fyrir börnin á meðan eða nýtt mér hreystivöllinn. Ég færi í gufuna og í nudd á eftir. Ef ég hefði aldrei komið á norðursvæði Vestfjaðra áður þá myndi ég leggja áherslu á að heimsækja tvo staði fyrir utan Bolungarvík, Bolafjall, auðvitað, og svo fossinn tilkomumikla, Dynjanda við Borgarfjörð í Arnarfirði. Það er um þriggja tíma akstur fram og til baka frá Bolungarvík að Dynjanda og hægt að heimsækja Hrafnseyri í leiðinni og sjá safnið um Jón Sigurðsson forseta og eina af hetjum Íslendinga.“

Fossinn Dynjandi er í Arnarfirði.
Fossinn Dynjandi er í Arnarfirði. mbl.is/Einar Falur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert