Jónína Benediktsdóttir, íþróttafræðingur og kennari, hefur verið frumkvöðull á sviði heilsu í um þrjá áratugi. Hún segir að fólk eigi ekki að hella í sig víni í sumarfríinu og hana hryllir við þeirri tilhugsun að ferðast um landið í húsbíl. Það sem hún hefur lært af lífinu er að staldra við og taka það rólega.
Eru ferðalög innanlands góður kostur að þínu mati?
„Já. Upp að vissu marki. En það sem við sjáum á Facebook er ekki hin raunverulega mynd af íslensku samfélagi. Ég fæ enga sektarkennd af að horfa á Helga Jóhannesson lögfræðing vin minn hoppandi á öll fjöll. Það er fátt fólk sem getur það. Ég fór á Fly Over Iceland og það hentaði mér vel. Þar sannfærðist ég um að landið mitt er gjöf frá Guði sem mér ber að hugsa vel um. Svona sköpun getur ekki verið tilviljun.
Ég vorkenni fólki í húsbílum. Mér finnst það hroðaleg tilhugsun að kúldrast í svona bíl en að ferðast og skoða landið eiga allir að gera. En ekki alla daga, allar helgar. Sumir fá sektarkennd ef þeir hafa ekki myndað sig uppi á hæstu fjöllum. Gleðin er að búa í bæ þar sem náttúran gerist ekki fallegri, sundlaugarnar eru þrjár og svo fer maður bara út að borða ef hugsunin er þar,“ segir Jónína en hún er búsett í Hveragerði og segir að þar sé best að vera.
Hverjir eru uppáhaldsstaðirnir þínir?
„Ég veit ekkert sterkara en að fara í Laugaskarðið í sundlaugina. Hún endurnærir mig og læknar mig af kvíða. Annars eru það Vestmannaeyjar, Þórsmörk, Hljóðaklettar, veiðiárnar okkar og þá sér í lagi Laxá í Aðaldal.“
Hverju mælirðu með að fólki hugi að í sumarfríinu?
„Ég mæli helst með því að vera hér og nú og njóta. Ekki alltaf að vera á leið eitthvað eða á leið frá því að koma á annan stað en það er á. Í vinnunni minni sé ég kvíðann hjá mörgum við að vera að gera eitthvað sem þeir vilja ekki gera; vera með fólki sem þeir vilja ekki vera með, á tíma og á stað sem þeir vilja ekkert vera á. Flestir vilja njóta einfaldleikans. Við eigum öll að getið notið einfaldleikans hér á landi, en því miður eru margir illa veikir, börn kvíðin og unglingar í neyslu hugbreytandi efna. Það er kall eftir því að samfélagsábyrgðin verði friður og kærleikur. Hitt er að drepa okkur.“
Hvað hefur komið þér á óvart tengt sumrinu?
„Hvað margir hafa viljað detox á Hótel Örk í sumar. Það hafa um 100 manns gefið heilsunni frið og núllstillt kerfin sín. Allir fóru sem unglingar út af síðasta námskeiði og það kom mér mest á óvart. Við fengum frábærar viðtökur enda þurfa frumkvöðlar alltaf að trúa á lausnir.“
Gerðir þú eitthvað í sumar sem þú ætlar ekki að gera aftur?
„Ég ætla ekki að gera plön um allt of mikið, því þau virka ekki. Ég er að eldast og það er gaman ef maður sleppir skömminni yfir að vilja stundum ekki gera neitt. Nú er það þroskinn sem ég sýni og að vera með barnabörnunum mínum er aldrei þreytandi. Það gefur mér í lífinu mest.“
Skiptir miklu máli að ná heilsunni góðri í fríinu?
„Já, það finnst mér. Að hlaða sig af D-vítamínum og súrefni með því að anda djúpt, ekki eitra sig í mat og drykk. Það tekur langan tíma að afeitra sig af stressi en enn lengri að afeitra sig af dagdrykkju. Sumum tekst jafnvel ekki að hætta að drekka eitur. Þessir aðilar sitja þá uppi með að vera feitir, kvíðnir og með vanlíðan. Áfengi er kvíðavekjandi. Þeir eru þá búnir að verða sér og sínum til skammar og hafa meitt börnin sín og maka.
Meðan einn er fullur þjást tugir í kringum hann. Pælið í því! Það vill enginn vera vond manneskja. Heilsa felur í sér alla grunnþætti; umhverfi, hreyfingu, mataræði, hugarfar og erfðir. Við ráðum ekki við erfðirnar en við þurfum ekki að líkjast ættingjum okkar. Breytt hugarfar hjálpar okkur við það ef við viljum.“
Hvernig leggst veturinn í þig?
„Ég held að þetta verði besti vetur í manna minnum. Sá síðasti var sá versti en við lærðum að í raun ráðum við engu. Guð er skapari alls en ekki við. Ef við höfum ekki lært þetta þá lærum við aldrei neitt. Það er því mikilvægt að þakka Guði og biðja um góðan vetur og haga okkur eins og hans börn. Guð refsar ekki en hann kann að aga fólk og er ekki þroskaþjófur.“