Helgi Jean Classen, skemmtikraftur og umsjónarmaður hlaðvarpsins Hæ Hæ ásamt Hjálmari Erni Jóhannssyni, hefur ferðast um Ísland síðustu tvær vikur. Hann fór í Stuðlagil og skemmti sér konunglega þegar hann fór á einhyrningskút, sem hefur notið mikilla vinsælda hjá áhrifavöldum, niður þennan heitasta stað Íslands.
„Ég er búinn að vera á hringferð um landið í tæpar tvær vikur með Kakódrottningu Íslands, Júlíu Óttars. Ég fæ eiginlega samviskubit hvað það er mikið að skoða og næ ekki að gera þegar maður þeysir fram hjá öllum þessum vegum. Eins og Hnefilsdalur. Hvað gæti verið að gerast þar?
Það gefur svo alveg nýja tilfinningu að skoða staði með því að baða sig í fossum, ám og sjónum. Það er alveg geggjað. Þótt auðvitað þurfi maður alltaf að hafa öryggi í fyrirrúmi,“ segir Helgi.
Hann segir að það geri öll ferðalög skemmtilegri með því að flippa smá.
„Ég hef líka haft gaman að því að blanda flippinu inn í ferðirnar. Það er bara svo gaman. Við vorum þessa helgina á Kakó retreati á Borgarfirði eystri og vorum að fara í Stuðlagil. Þá hitti ég galdrakarlinn John Tómasson sem hafði fundið þennan einhyrning sem þráði að fara í gilið. Ég fékk þá far með einhyrningnum niður gilið og leið súper einstökum. Enda er einhyrningurinn alltaf einstakastur.“