Fór ekki í eina einustu útilegu

Íris Tanja Flygenring á ferðalagi um landið.
Íris Tanja Flygenring á ferðalagi um landið. Ljósmynd/Aðsend

Íris Tanja Í. Flygenring leikkona hefur haft í nógu að snúast að undanförnu. Sumarið hennar var óvenjulegt að því leyti að það fór að mestu í tökur á netflixþáttunum Kötlu í leikstjórn Baltasars Kormáks. Sögusvið þáttanna er Vík í Mýrdal og því varði Íris Tanja megninu af sumrinu þar. Hún nefnir Þakgil sem einn fallegasta stað sem hún hefur komið á. 

Hvernig var sumarið þitt?

„Það var alls konar! Ég eyddi megninu af því í tökum á sjónvarpsþáttunum Kötlu, svo það var  svolítið öðruvísi en algjörlega æðislegt. Ég er mikil útilegukona og ólst upp í tjaldi öll sumur víðsvegar um landið eða þá á Spáni þar sem hluti fjölskyldu minnar býr svo það var svolítið skrítið að gera hvorugt þetta sumarið.“

Íris Tanja var dugleg að njóta náttúrulauganna.
Íris Tanja var dugleg að njóta náttúrulauganna. Ljósmynd/Aðsend


Ferðaðistu mikið um landið?

„Ég fór í dagsferð til Vestmannaeyja, en ég hafði aldrei áður komið þangað svo það var mjög gaman. Ég náði líka að koma að einni þriggja daga ferð í lítinn bústað rétt fyrir utan Hvolsvöll með Lindu vinkonu minni. Það var alveg æðislegt og endurnærandi en við fórum í göngur og náttúrulaugar á hverjum degi. Þá var Vík mitt annað heimili í sumar og ég ferðaðist mikið þar í kring þegar ég átti lausa stund. Við fórum nokkur upp í Þakgil og það er einn fallegasti staður sem ég hef komið á á Íslandi.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart í sumarfríinu?

„Að ég hafi ekki farið í eina einustu útilegu!“

Ljósmynd/Aðsend


Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir?

„Þar sem ég er ættuð frá Vestfjörðum eiga þeir alltaf stóran stað í hjarta mínu en auðvitað er ekki erfitt að falla fyrir þeim. Ásbyrgi er líka algjörlega sturlað og mig langar til að skoða Stuðlagil. Þakgil er svo nýkomið á listann yfir fallegustu staðina.“

Gerðir þú eitthvað í sumar sem þig langar ekki að gera aftur?

„Ég væri alveg til í að sleppa við heimsfaraldur næstu sumur ...“

Hvað er fram undan?

„Nú erum við byrjuð að æfa upp Þitt eigið tímaferðalag sem við byrjuðum að sýna í Þjóðleikhúsinu í febrúar síðastliðnum en hefur legið í smá dvala síðustu mánuði. Ég var að klára tökur á Kötlu og byrja svo fljótlega í öðru verkefni – ég hef komist að því að ég er ekki góð í að taka mér frí.“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Mjög vel! Minn uppáhaldsárstími er haustið. Ég á afmæli í nóvember og er mikið afmælisbarn og því er veturinn og aðallega haustið minn uppáhaldsárstími. Það er eitthvað æðislegt þegar laufin verða rauð, gul og appelsínugul og haustlyktin mætir. Það verður aftur hægt að kveikja á kertum og liggja undir teppi með kakó í kósí.“

Íslenska náttúran er mikilfengleg.
Íslenska náttúran er mikilfengleg. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka