„Þegar vitundin um vellíðunina verður kuldanum yfirsterkari“

Magnea ásamt góðum vinkonum í rigningu og roki á Íslandi.
Magnea ásamt góðum vinkonum í rigningu og roki á Íslandi.

Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur og sérfræðingur á sviði jafnréttismála starfar sem stendur í Genf hjá Alþjóðaráði Rauða krossins og Rauða Hálfmánans. Þar vinnur hún að verkefnum sem lúta að forvörnum og viðbrögðum við kynferðislegu ofbeldi í vopnuðum átökum. Hún dvaldi á Íslandi í sumar og segir að hún hafi notið þess að vera í kringum vini og vandamenn. Hún er mikið fyrir náttúruna og fór meðal annars í sína árlegu gönguferð um hálendið í góðra vina hópi. 

Ertu bú­in að njóta sum­ars­ins?

„Já, heldur betur út í gegn! Ég fór í mína árlegu fjallaferð með allt sem ég þurfti á bakinu. Fjallaferðin að þessu sinni var að ganga Laugaveginn með yndislegum vinahópi.  Dagleiðirnar voru ekki langar sem er skemmtileg tilbreyting frá þeim „kappgöngum“ sem ég er vön. Ég óð nokkrar ár sem minnir mig alltaf á þegar ég gekk í fyrsta sinn berfætt yfir ískalda jökulsá. Þá hélt ég satt best að segja að ég yrði ekki deginum eldri. Síðar streymdi vellíðanin fram. Núna fæ ég fiðring í magann af tilhlökkun þegar stendur til að vaða jökulkaldar sprænur! Aldeilis merkileg endurforritun og viðsnúningur sem verður þegar vitundin um vellíðunina verður kuldanum yfirsterkari. Við vorum alls sex daga á ferðalagi en vanalega er Laugavegurinn genginn á styttri tíma. Það var hins vegar ótrúlega gaman að gefa sér góðan tíma til njóta náttúrunnar þar með talið í kringum skálana þar sem við gistum og svo fjörugrar samverunnar í skálunum. Mikill metnaður var lagður í matargerð og hörku spilamennska fór fram á kvöldin. Það voru allir í stuði með guði. Í raun gleði og gaman allan tímann þar sem vinskapurinn var vökvaður og innsiglaður! Fyrir utan það fór fram hin árlega tenging mín við náttúruna, nú-ið sem er svo snúið því að það er aldrei búið. Í sumar fór ég líka í fyrsta sinn í sjósund með vinkonum mínum og er vitanlega nokkuð ánægð með það. Það var algjör draumur í dós!“

Eru ferðalög inn­an­lands góður val­kost­ur að þínu mati?

„Já, engin spurning. Náttúrufegurð Íslands er svo fjölbreytt og svo er það mannlífið um allt land sem er svo skemmtilegt. Ég mæli til dæmis með því að fara á jökul og upplifa í sameiningu þá djúpu kyrrðarþögn sem þar er. Þar er varla fuglahljóð eða flugnasuð sem er mögnuð og einstök upplifun. 

Mér finnst líka mjög spennandi að sigla út í eyjar eins og Flatey og Hrísey. Nálægðin við sjóinn er svo hressandi og að skynja sterkar hversu mikill eyjaskeggi maður er sjálfur. Ég hef til dæmis notið þeirra gæfu undanfarin ár að dvelja reglulega í Hrísey hjá æskuvinkonu minni. Fyrst þegar ég kom þangað var ég svo úrvinda eftir mikla vinnutörn og ferðalög. Ég fór að sofa og vaknaði ekki fyrr en langt eftir hádegi næsta dag en vanalega vakna ég eldsnemma. Það var eins og eyjan hefði tekið mig í fangið og ruggað mér eins og ungabarni í heilandi djúpsvefn. Í sumar fór ég með hjartagullinu mínu Guðjóni Bjarnasyni til Flateyjar þar sem við heimsóttum vini og Hríseyjar þar sem Strokkvartettinn Siggi var með tónleika í kirkjunni. Þórunn Ósk Marinósdóttir víóluleikari er systir mín. Hún og maðurinn hennar, Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari, stofnuðu hljómsveitinni með fiðluleikurunum Unu Sveinbjarnardóttur og Helgu Þóru Björgvinsdóttur. Það er skemmtun á heimsmælikvarða að hlusta á þau.“

Hoppandi kátar á Laugarveginum.
Hoppandi kátar á Laugarveginum.

Hverj­ir eru upp­á­haldsstaðirn­ir að fara á?

„Uppáhaldsstaðirnir eru Hálendið, strandlengjan og sundlaugar um allt land. Staðir, sem maður þekkir og tengir við og staðir sem maður þekkir ekki en myndar tengingu við eftir að hafa komið þangað. Sem dæmi um hið fyrrnefnda er heimabærinn Akureyri, Fnjóskadalurinn og Köldukinnin þaðan sem foreldrar mínir koma. Sem dæmi um hið síðarnefnda er t.d. Tjörnesið, Kópasker, Melrakkasléttan og Raufarhöfn sem ég kynntist þegar ég vann einn vetur sem kennari í heimavistarskólanum Lundi Öxarfirði og svo Skagaströnd og Salthótelið sem ég kom til í fyrsta sinn í fyrra og núna aftur í sumar. Algjör dýrðarstaður.“

Hvað mæl­irðu með að all­ir taki með sér í fríið?

„Ég mæli með góðri tónlist til að spila í bílnum og sundföt og gott skap hvernig sem vindar blása. Ég mæli einnig með leikjum og spilum í fjallaskálum og góðu keppnisskapi. Einn af toppum sumarsins var t.d. hörkuspennandi keppni í leiknum Kubb í frábærum félagsskap í Flatey.“

Hvað hef­ur komið þér á óvart tengt sumr­inu?

„Kannski hversu fólk er almennt mikið á faraldsfæti og létt í lund þrátt fyrir Kófið. Einnig hversu fínt það er í raun og afslappað að veitingahús loki fyrr. Hið besta mál og gaman að hitta vini meira heima við.“

Magnea kann vel við sig í náttúrunni.
Magnea kann vel við sig í náttúrunni.

Hvað mynd­ir þú aldrei gera aft­ur sem þú hef­ur gert í sum­ar?

„Eiginlega ekkert. Allt er eins og það á að vera.“

Skipt­ir miklu máli að ná upp brún­kunni í sum­ar­leyf­inu?

„Það er alltaf gaman að vera í sólinni og fá nokkrar freknur á nefið og bæta við D-vítamín forðann. Það gefur hraust og gott útlit og bætir heilastarfsemina.“

Hvernig leggst vet­ur­inn í þig?

„Veturinn leggst vel í mig þrátt fyrir Kófið sem ég er að læra að lifa með eins og aðrir. Ég starfa í Genf eins og stendur en þegar ég hef dvalið á Íslandi finnst mér gaman að fara í fjallgöngur og upplifa staði eins og Mývatnssveitina, Hólasanda og Möðrudalsöræfin þegar allt er á kafi í snjó. Það er mögnuð og að sama skapi allt önnur upplifun en á sumrin. Mér finnst andstæðurnar heilla. Ég er þegar búin að stofna gönguhóp í röðum íslenskra kvenna, sem búa í Genf og næsta nágrenni og markmið hópsins í vetur er að halda áfram kynnunum við fallegu Alpa- og Júrafjöllin í Sviss og Frakklandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert