Svaf úti undir berum himni í Reykjafirði

Hjördís Ósk Óskarsdóttir er búin að vera dugleg að ferðast …
Hjördís Ósk Óskarsdóttir er búin að vera dugleg að ferðast innanlands í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Hjördís Ósk Óskarsdóttir, rekstrarstjóri og yfirþjálfari hjá Crossfit XY í Garðabæ, nýtti sumarið til að kynnast Íslandi betur. Hún er vön að ferðast erlendis á sumrin en í sumar áttaði hún sig á því hvað hún á eftir að skoða mikið af sínu eigin landi. 

„Ég er vön að ferðast mikið erlendis á sumrin en í sumar hef ég ekkert farið og hef því ferðast mun meira hérna innanlands en ég hef gert síðustu sumur,“ segir Hjördís. 

Hvað ertu búin að gera skemmtilegt í sumar?

„Ég er ekki búin að taka mér mikið sumarfrí en ég hef reynt að lengja helgarnar og farið aðeins á flakk um landið. Ég er mikið á fjallahjóli, þannig að ég hef verið að drösla því með mér hvert á land sem er og prófa alls konar skemmtilegar hjólaleiðir. Einnig er ég búin að fara mikið norður á Akureyri og fór svo austur á Egilsstaði og hitti þar gamla skólafélaga og skoðaði Stuðlagil, sem var alveg magnað.

Svo tók ég nokkra daga með vinum mínum og ferðuðumst við um alla Vestfirði í misgóðu veðri, en það er  alltaf gaman að koma vestur þar sem ég bjó þar þegar ég var yngri.“

Í hinu fallega Stuðlagili.
Í hinu fallega Stuðlagili. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem stóð upp úr?

„Ég myndi segja að fjallahjólaferðin sem ég fór með vinnufélögunum mínum hjá Iceland Bike Farm á Kirkjubæjarklaustri sé það sem stendur mest upp úr. Við fengum frábært veður og landslagið þarna er ótrúlegt. Ég mæli hiklaust með að fólk fari og prófi þetta.“

Hjördís hjólaði mikið í sumar og fór meðal annars í …
Hjördís hjólaði mikið í sumar og fór meðal annars í skipulagða hjólaferð. Ljósmynd/Aðsend

Var eitthvað sem kom ánægjulega á óvart?

„Já, ég myndi segja að það hafi komið skemmtilega á óvart að við gátum sofið úti undir berum himni í Reykjafirði fyrir vestan, svo gott var veðrið þá nótt. Annars er bara búið að koma mér mjög mikið á óvart hvað ég á eftir að skoða mikið af landinu og eiginlega til skammar hvað ég hef ferðast lítið um landið síðustu ár.“

Hjördís svaf úti í góðu veðri í Reykjafirði í sumar.
Hjördís svaf úti í góðu veðri í Reykjafirði í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Er sumarið búið eða eru fleiri ævintýri á stefnuskránni?

„Ég vil ekki segja að sumarið sé búið. Ég er ekki með nein stór plön fram undan enda er ég meira svona fyrir að taka bara „spontant“ ákvarðanir og fara bara eitthvað sem mér dettur í hug þegar tækifæri gefst.“

Er eitthvað sem þú náðir ekki að gera í sumar en dreymir um að gera?

„Já, ég er ekki búin að ná að fara í Ásbyrgi og á Borgarfjörð eystri, ætli ég geymi það ekki þangað til næsta sumar.“

Hjördís er crossfit-þjálfari eins og sést á þessari mynd sem …
Hjördís er crossfit-þjálfari eins og sést á þessari mynd sem tekin var á Rauðasandi í sumar. Ljósmynd/Aðsend
Hjördís prófaði margar skemmtilegar hjólaleiðir á fjallahjólinu í sumar.
Hjördís prófaði margar skemmtilegar hjólaleiðir á fjallahjólinu í sumar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert