Ferðamenn í Sviss fá gjafabréf

Ljósmynd/Unsplash/Anokhi De Silva

Mörg lönd og borgir gera nú allt sem í þeirra valdi stendur til að blása lífi í ferðamannaiðnaðinn eftir kórónuveiruskellinn. Fólk sem ferðast til Genfar í Sviss fær upphæð til þess að eyða í borginni að því fram kemur á vef Lonely Planet. 

Þeir ferðamenn sem kjósa að ferðast til Genfar í Sviss fá gjafabréf eða eins konar ferðaávísun eins og Íslendingar fengu í byrjun sumars. Gjafabréfið í Sviss gildir þó fyrir alla gesti og er hægt að nota á fjölmörgum hótelum, veitingastöðum og í afþreyingu. 

Gestir fá gjafabréfið þegar þeir innrita sig á hótel í að minnsta kosti tvær nætur. Hvert herbergi fær aðeins eitt gjafabréf. Upphæðin er 100 svissneskir frankar eða um 15 þúsund íslenskar krónur. Eyða þarf upphæðinni fyrir 31. desember 2020. 

Genf er önnur stærsta borg Sviss og eru höfuðstöðvar fjölmargra alþjóðlegra stofnana í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert