Hópur fólks í Stuðlagili sem er sagður á vegum leikarans Wills Smiths tók í dag upp það sem virtist vera áhættuatriði, að sögn landeiganda. Hollywoodstjarnan hefur þó enn sem komið er ekki sést í Stuðlagili og er talið ólíklegt að hann muni láta sjá sig. Helsti fjölmiðill Austurlands, Austurfrétt, greinir frá þessu.
„Það eru engir frægir á ferðinni hér, bara venjulegt fólk,“ sagði Stefanía Katrín Karlsdóttir, einn eigenda jarðarinnar Grundar á Efri-Jökuldal, í samtali við Austurfrétt í dag. „Það er hópur fólks núna niðri í gilinu að taka upp það sem virðast vera áhættuatriði í þessari mynd sem Will er að gera.“
Stefanía sagði vissulega ónæði vegna tökuliðsins sem telur nokkra tugi. Svæðinu var lokað í gær og sömuleiðis í dag. Stefanía þurfti því að vísa ferðamönnum frá.
„Það var ekki um neinn fjölda að ræða en við erum enn að fá slæðing af erlendum ferðamönnum í skoðunarferðir.“