Vinirnir Kasey Stewart og Julie Berry settu heimsmet í desember 2017 þegar þau heimsóttu sjö heimsálfur á rétt rúmum 92 klukkutímum. Berry og Stewart kynntust sem sjálfboðaliðar á tónleikum Bonnie Tyler í Queensland á Nýja-Sjálandi. Áður en þau lögðu af stað í ferðalagið höfðu þau aðeins hist einu sinni og verið saman í einn dag.
Markmið Stewarts og Berry með því að setja heimsmet var að fara út fyrir þægindarammann og um leið hvetja annað fólk til að gera slíkt hið sama. Þau kölluðu verkefnið „7in72“ eða 7á72. Nafnið kom frá upphaflegu markmiði þeirra að komast til allra heimsálfanna á 72 tímum. Stormur á suðurskautinu var þeim að falli og voru þau 20 tímum lengur á leiðinni en til stóð. Þau settu þó heimsmet með ferðalagi sínu, sem tók þrjá daga, 20 klukkutíma, fjórar mínútur og 19 sekúndur.
Þegar Stewart og Berry hittust fyrst voru þau bæði að byrja á ferðalagi að því er fram kemur á heimsmetasíðu Guinness. Þau áttu það sameiginlegt að hafa hætt í störfum sínum til þess að ferðast. Þau áttu það einnig sameiginlegt að hafa bæði tekið þátt í raunveruleikaþáttum. Stewart tók þátt í níundu þáttaröð af The Bachelorette en Berry tók þátt í Survivor. Stewart ferðaðist til allra sjö heimsálfanna áður en hann reyndi við hraðametið. Á instagramsíðu hans má meðal annars sjá að hann heimsótti Ísland áður en hann fékk hugmyndina um heimsmetið. Hann hafði samband við Berry og bæði voru þau staðráðin í að slá gamla metið sem var 120 klukkutímar.
Þau hófu ferðina hinn 13. desember 2017 í Sydney í Ástralíu. Þaðan flugu þau til Dúbaí í Asíu. Frá Dúbaí flugu þau til Kaíró 14. desember og voru þar með komin til Afríku. Sama dag flugu þau til Frankfurt og voru þar með komin til Evrópu. Hinn 14. desember fóru þau í sína þriðju flugferð sama daginn en þá var förinni heitið til Norður-Ameríku, Toronto í Kanada nánar tiltekið. Förinni var heitið til Santíagó í Síle í Suður-Ameríku þegar þau fóru í fjórðu flugferðina 14. desember. Hinn 15. desember flugu nýju vinirnir til Punta Arenas, einnig í Síle, en þau fóru þangað til þess að komast í flug til Suðurskautslandsins hinn 16. desember.