Þórdís Ólafsdóttir hefur búið á Tenerife í þrjú ár. Hitinn fer betur í hana. Þórdís flutti til Tenerife í ágúst 2017 og hefur því búið þar í þrjú ár. Hún var hætt að vinna á Íslandi vegna líkamlegra kvilla og komin á örorku um svipað leyti. Þá langaði hana að prófa að flytja til spænsku eyjanna til þess að vita hvort hitinn færi ekki betur með hana, sem varð raunin.
„Dóttir mín flutti hingað um svipað leyti, en maðurinn minn var enn að vinna á Íslandi og kom öðru hvoru hingað til Tenerife. Nú er hann kominn á aldur og ætlar sér að vera hér með okkur,“ segir Þórdís sem líkar vel að búa á Tene, segir alla mun glaðari og afslappaðri en á Íslandi, þar sé ekkert stress og eyjan auk þes alveg frámunalega falleg.
„Nú orðið geri ég ekki mikið annað en að vera þessi dæmigerða húsmóðir og líkar vel. Ég reyndi aðeins að sjá um íbúðir í fyrstu, en það gekk bara ekki upp vegna líkamlegs ástands. Ég reyni að hreyfa mig svolítið og ganga, og bara að njóta hitans og eyjarinnar.“
Þórdís telur að venjulega hafi um 60-100 Íslendingar fasta búsetu á Tenerife en núna séu þeir um 50.
„Það hefur verið mjög rólegt síðan veiran skall á. Allt lokað nema matvörubúðir og apótek, öll eyjan eins og yfirgefin. Mjög mikið atvinnuleysi, því fólk hefur treyst á ferðamanninn.“
Þórdís segist í fyrstu hafa koðnað niður þegar Covid hófst og fannst ástandið mjög ógnvænlegt. Þau voru í útgöngubanni og urðu að halda sig heima, einungis var leyfilegt að fara í næstu búð, apótek og til læknis ef þess þurfti. „Það var skrýtið að horfa út í garð og á borðin í kringum sundlaugina, ekki sálu að sjá.“
Þórdís segir þau heppin með íbúð, hafa góðar svalir, þar sem þau gátu setið úti. „Alltaf klukkan sjö á hverju kvöldi fór fólk út á svalir og klappaði saman fyrir hjúkrunarfólkinu, sem stóð sig frábærlega. Mér finnst stjórnvöldum hafa gengið mjög vel hér gagnvart kórónuveirunni. Þeir eru strangir og fólk virðir reglurnar sem eru settar,“ segir Þórdís við Morgunblaðið.