Úr listnámi yfir í að reka fyrirtæki í ferðaþjónustu

Dagný Björg Stefánsdóttir er forstjóri og einn af stofnendum Hidden …
Dagný Björg Stefánsdóttir er forstjóri og einn af stofnendum Hidden Iceland. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska ferðaþjónustu fyrirtækið Hidden Iceland hefur verið að gera það gott síðastliðið árið en það hlaut fyrr á þessu ári Best of the Best-viðurkenningu frá Tripadvisor. Dagný Björg Stefánsdóttir er forstjóri Hidden Iceland og einn meðeigenda fyrirtækisins. 

Fyrirtækið stofnaði hún ásamt eiginmanni sínum, Scott Drummond og vini Ryan Connolly. Hidden Iceland var upphaflega hugarfóstur þeirra Scott og Ryan, en Scott er jarð- og fjármálafræðingur frá Ástralíu. Ryan starfaði áður sem fulltrúi alþjóðasamskipta hjá HSBC í Skotlandi. 

Scott og Ryan komu báðir til Íslands vorið 2016 og störfuðu sem jöklaleiðsögumenn og bjuggu undir Vatnajökli fyrst um sinn. Það sem átti eingöngu að vera tímabundið sumarstarf ílengdist hjá þeim báðum sem féllu fyrir Íslandi hefur verið hér allar götur síðan og unnið í ferðaþjónustu.

Dagný og eiginmaður hennar Scott Drummond.
Dagný og eiginmaður hennar Scott Drummond. Ljósmynd/Aðsend

„Sjálf er ég vöruhönnuður að mennt en ég útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2017 og kom upprunalega inn í myndina til þess að hanna vörumerki Hidden Iceland, heimasíðuna og heildarumgjörð fyrirtækisins.

Það verkefnið óx og þróaðist og ég varð fljótlega að virkum þátttakanda í uppbyggingu og rekstri fyrirtækisins. Ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið þessa u-beygju, að fara úr hönnun yfir í að reka ferðaþjónustufyrirtæki. Ég hef bæði lært ótrúlega margt og sömuleiðis getað nýtt minn bakgrunn úr hönnun til að nálgast þau fjölmörgu krefjandi verkefni sem maður stendur frammi fyrir í rekstri á ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Dagný Björg í viðtali við ferðavefinn. 

„Á þeim tíma sem að Hidden Iceland var stofnað var mikið um sameiningar á fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar. Mörg fyrirtæki höfðu þar að leiðandi þá tilhneigingu að einblína frekar á tölurnar og hámarka sætanýtingu umfram upplifun bæði gesta og starfsmanna. Við sáum okkur leik á borði og létum hugmyndina sem Scott og Ryan höfðu gengið lengi með verða að veruleika. Það sem við lögðum upp með í upphafi og hefur fleytt okkur áfram allt til dagsins í dag, er persónulegt og einstaklingsmiðað þjónustustig sem við gefum hverjum gesti frá fyrstu fyrirspurn, til bókunar og þar til ferðinni er lokið,“ segir Dagný og bætir við að þjónustustigið ásamt vel skipulögðum ferðum og góðu starfsfólki hafi komið þeim á þann stað sem þau eru í dag. 

Ryan Connolly er leiðsögumaður og einn af stofnendum Hidden Iceland.
Ryan Connolly er leiðsögumaður og einn af stofnendum Hidden Iceland. Ljósmynd/Aðsend
Hidden Iceland býður upp á jöklaferðir.
Hidden Iceland býður upp á jöklaferðir. Ljósmynd/Hidden Iceland

Glöggt er gests augað

Hidden Iceland sérhæfir sig í dagsferðum og pakkaferðum hér á landi. Þau bjóða upp á breitt úrval áætlunarferða frá Reykjavík, tveggja daga ferð um suðurströndina, jöklaferðir og einnig fjögurra daga ferðalag um vestfirsku fjöllin og firðina. 

 Ferðirnar sem við bjóðum upp á eru hannaðar með það í huga hvernig við sjálf viljum ferðast um landið okkar. Hvaða þjónustustig viljum við sjálf fá, hvaða staði viljum við heimsækja, hvar viljum við gista og borða og þar frameftir götunum. Þegar við erum að fara í jöklagöngu innan Vatnajökulþjóðgarðs þá viljum við ekki bara rétt stíga á jökulinn heldur viljum við ganga alla leið upp að ísfallinu og kynnast betur hinu síbreytilega jökullandsslagi þar sem við gangið framhjá einstökum jökulmyndunum svo sem sprungum, svelgjum og jökuldrýlum svo að dæmi sé tekið.

Þar sem Scott og Ryan eru ekki íslenskir þá hafa þeir notað sína eigin upplifun sem gestir á Íslandi sem innblástur við uppbyggingu ferðanna. Útkoman eru ferðir sem við erum ekki bara ánægð með, heldur stolt og spennt fyrir að bjóða vinum og fjölskyldu í.

En við erum lítið fyrirtæki og getum ekki gert allt sjálf og því störfum við náið með traustum samstarfsaðilum hringinn í kringum landið sem hafa sömu hugsjónir og við sem bætir enn frekar við heildarupplifun okkar gesta,“ segir Dagný.

Gullfoss.
Gullfoss. Ljósmynd/Hidden Iceland

Hvernig gekk sumarið 2020?

„Sumarið okkar byrjaði rólega en tók fljótlega við sér eftir að takmarkanir á landamærunum voru aflétt um miðjan júní. Viðskiptahópurinn okkar breyttist núna í sumar og við tókum við fleiri íslenskum hópum en áður sem var frábært. Við sáum síðan undir lok júlí og byrjun ágúst að við vorum komin með góðan grunn fyrir komandi haust og vetur, en þar sem við bjóðum mikið upp á jökla- og íshellaferðir þá er almennt meira að gera hjá okkur á veturna heldur en á sumrin. Það hins vegar breyttist fljótt þegar takmarkanir voru hertar á ný á landamærunum í ágúst,“ segir Dagný.

Ljósmynd/Hidden Iceland
Ljósmynd/Hidden Iceland
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert