Áströlsk stjórnvöld hafa óskað eftir því við tæknirisann Google að myndir af göngunni upp á Uluru-fjall verði fjarlægðar af kortakerfi Google. Ástæðan er sú að lokað hefur verið fyrir göngur upp á topp fjallsins.
Uluru-fjall er eitt af stærstu kennileitum Ástralíu og var lengi vel vinsælt að ganga á topp fjallsins. Árið 2019 var gönguleiðum fjallsins lokað vegna þess að það stendur á þýðingarmiklum stað fyrir frumbyggja Ástralíu, nánar tiltekið Anangu-ættbálkinn. Fólk af frumbyggjaættum og fleiri hafa krafist þess síðan 1985 að gönguleiðum á fjallið yrði lokað. Í kortakerfinu var hægt að fara í rafræna göngu upp á fjallið og virða útsýnið af toppnum fyrir sér.
Í viðtali við ABC í Ástralíu sagði talsmaður Google í Ástralíu að tæknifyrirtækið væri að vinna í því að fjarlægja myndirnar sem tengjast göngunni.