„Bless Ísland, nú er ég heima“

Már Elíson kann vel við sig á Spáni.
Már Elíson kann vel við sig á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Már Elísson flutti til Spánar með eiginkonu sinni Fríðu Einars í fyrra. Hjónin keyptu sér hús á Costa Orihuela á Spáni árið 2007 og fluttu þangað alfarið í fyrra þegar þau hættu að vinna. Már hefur sterka tengingu við Spán og líður eins og heima hjá sér í landinu. 

„Við hjónin erum búin að vera í yfir 30 ár viðloðandi þetta svæði, Costa Blanca, þekkjum það nánast algerlega og séð það byggjast upp,“ segir Már og segir þau hafa sótt Costa Blanca stíft sem sumardvalarstað eftir að Már fór í tungumálaháskóla árið 1983 í borginni Santander á Norður-Spáni. Þau voru með rekstur á Benidorm til skamms tíma og Már starfaði einnig sem fararstjóri fyrir World Tours, ferðaskrifstofu Ingólfs Guðbrandssonar, í Suðurhöfum.

„Í kjölfar búsetuflutninganna sögðum við okkur úr öllu kerfi á Íslandi og sóttum um fulla búsetu, eða „residence“ á Spáni,“ segir Már. 

Ströndin er falleg á Spáni en landið hefur þó upp …
Ströndin er falleg á Spáni en landið hefur þó upp á mun meira en bóða. Ljósmynd/Aðsend

Líður eins og heima á Spáni

„Að aðlagast lífinu á Spáni leggst eðlilega misjafnlega í fólk eins og gengur og gerist en við höfum aðlagast vel, enda þekkjum við nánasta umhverfi okkar, landið og stjórnkerfi þess mjög vel, sem og að hafa tungumálið, spænskuna, sem opnar allar dyr fyrir okkur. Mér hefur alltaf fundist ég vera kominn heim og fundið í mér eins og ég hafi verið hér áður og hjarta mitt hefur alltaf slegið í takt við hjartslátt Spánar. Ég hef oft í gegnum árin staðið í fjörunni á ströndum Spánar, horft yfir hafið og sagt í huganum: „Bless Ísland, nú er ég heima.“ Það tók okkur því aðeins fyrsta búskaparárið að finna út hvernig veður – sól, sumarhiti, vindur, raki og vetrarkuldi virkar.“

Már segir kostina við Spán fjölmarga. Veðrið er náttúrlega stór kostur að hans mati og eru þau laus við öfgarnar í veðrinu á Íslandi nú þegar þau búa á Spáni. 

„Spánn hefur sinn vetur, vor, sumar og haust, en veðurfarið rennur betur saman. Sumrin eru, svona fyrst í stað, heldur heit fyrir okkur, en þá erum við að tala um 30 til 36 gráður yfir daginn í júlí, ágúst og september. Í byrjun október hefst haustið með 25 til 29 gráðum, þægilegum hita til fyrsta vetrardags, 21. desember. Veturinn, sem oft er mjög mildur, stendur í um það bil tvo til þrjá mánuði eða fram í miðjan mars.“

Hjónin Már Elíson og Fríða EInars búa á Spáni.
Hjónin Már Elíson og Fríða EInars búa á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Már segir Spán hafa upp á svo miklu meira að bjóða en sólarstrendur og ódýran bjór. 

„Á Spáni, sem er fimm sinnum stærri en Ísland, eru einnig laxveiðiár, heitar laugar, stöðuvötn, hellar, dalir og fjöll sem og skíðasvæði, sem opin eru allt árið í háum fjöllum landsins, Pýreneafjöllunum og í hæsta fjalli á innlandi Spánar, Sierra Nevada í Andalúsíu.

Óumdeilanlegur kostur einnig við að búa á Spáni er úrval matvöru og drykkja. Margir og geysistórir götumarkaðir með mat og fatnað og allt sem heyrir til heimilishalds. Þar er verðlag tvisvar til þrisvar sinnum lægra en við eigum að venjast á Íslandi.“

Því að nota lífeyrinn á Spáni fylgja þó ákveðnir ókostir. Már bendir þar á meðal á óstöðugt gengi íslensku krónunnar. Hann er hrifnari af evrunni sem er á Spáni. 

Veturinn er ekki langur og erfiður á Spáni.
Veturinn er ekki langur og erfiður á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Gott Íslendingasamfélag

Már segir heilbrigðiskerfið á Spáni og spítalana vera til fyrirmyndar. Að sögn hans hefur spítali hjónanna á Torrevieja-svæðinu til að mynda fengið mörg verðlaun. Lyfjaverð á Spáni er einnig margfalt lægra en á Íslandi. Hann kvartar því ekki yfir lífinu í kórónuveirufaraldrinum. 

„Lífið hjá okkur í kórónufaraldrinum hér á Spáni hefur ekki verið neitt til að kvarta yfir enda lítil smit á Costa Blanca-ströndinni og bæjum í nágrenni okkar á Vega Baja-svæðinu. Ekkert smit hefur greinst hjá Íslendingum hér frá því veiran stakk sér niður og þá öllu lokað, 15. mars 2020, og er helst að þakka að hér fara allir eftir settum reglum varðandi sótthreinsun, nándartakmörk virt, sem og að heilsast og kveðjast. Hefur þetta verið, og er, til algerrar fyrirmyndar í alla staði, hjá aðfluttum sem og stuttverufólki sem á hér sumarleyfishús.

Má líður eins og heima hjá sér á Spáni.
Má líður eins og heima hjá sér á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Samfélag Íslendinga á Costa Blanca-ströndinni á Spáni er afar fjölþætt. Hér eru gönguhópar, hjólahópar, ferðahópar og matarklúbbar, auk þess sem Íslendingafélagið á Spáni, Costa Blanca-ströndinni, er vel virkt með fast aðsetur og félagsheimili, Setrið. Íslendingafélagið heldur matarveislur við ýmis tækifæri, þorrablót og jólagleði, er með sýningar á handavinnu Íslendinga, býður upp á tónlistarviðburði og skipuleggur stutt ferðalög um landið – svo eitthvað sé nefnt.

Hingað til Spánar hafa flust hljóðfæraleikarar sem hafa komið fram reglulega á skemmtunum, til dæmis á vegum Íslendingafélaganna, og einnig er hér starfrækt hálfíslensk hljómsveit, No Limit, sem gerir það gott á skemmtistöðum um alla Costa Blanca-ströndina.“

Sakna ekki Íslands

„Það má kannski spyrja hvort hugurinn leiti ekki einhvern tímann til föðurlandsins eftir að hafa sagt sig úr sambandi við landið. Söknum við landsins okkar gamla?

Fyrir mig, og okkur hjónin, er nákvæmlega ekkert sem gæti kallað á okkur til baka, þar sem við erum með börnin okkar og nánast öll barnabörn, að einu undanskildu, erlendis. Börnin okkar, uppkomin, búa í Englandi, Noregi og hér á Spáni og gengur vel hjá þeim. Einnig er auðveldara, sem og miklu ódýrara, fyrir okkur að heimsækja þau, akandi eða fljúgandi á lágum fargjöldum.

Helsta samband okkar við Ísland er í gegnum fjölmiðla en lítið er að gerast á gamla föðurlandinu sem við þekkjum ekki fyrir. Við erum hvort sem er orðin óvirk til að aðhafast nokkuð sem tengist landinu og sitjum því bara í sólinni, við gnægtaborð spænskrar menningar, horfum á og fylgjumst með,“ segir Már að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert