Hefur búið í Berlín undanfarin fjögur ár

Vera Hilmarsdóttir hefur verið að gera falleg listaverk í Berlín. Hún er tímabundið á landinu með fjölskyldu sinni og hefur komið listaverkunum vel fyrir hér heima hjá tengdaforeldrunum. 

Fyrirsætan og listakonan Vera hefur dvalið í Berlín undanfarin fjögur ár ásamt kærastanum sínum, Stefáni Má Högnasyni. Þau fluttu tímabundið til landsins í mars á þessu ári til að eignast fyrsta barnið sitt, sem þau vildu að fæddist á Íslandi.

Vera útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með gráðu í myndlist árið 2018 og hefur unnið sem fyrirsæta meðfram því að skapa list á undanförnum árum.

Lífið snýst um Miró

„Þessa dagana snýst lífið meira eða minna um litla Miró okkar. Nú er boltinn þó rólega byrjaður að rúlla aftur eftir óléttutímabilið og fyrstu mánuði eftir fæðinguna. Ég er nýlega byrjuð að teikna og mála aftur. Ég hlakka til að komast betur í gírinn og skapa meira eftir því sem tíminn líður.

Það er búið að vera gott að vera heima í faðmi fjölskyldunnar. Við erum búin að búa hjá mömmu Stefáns frá því við komum úr sóttkví í apríl og hjálp hennar hefur verið ómetanleg. Ég segi að nýbakaðir foreldrar ættu alltaf að hafa afa og ömmur inni á heimilinu ef þeir geta, það hjálpar svo mikið að fá smá pásu þegar þau vilja halda á og knúsa litlu börnin. En við stefnum á að fara aftur til Berlínar í byrjun næsta árs.“

Vera segir að þau hafi farið minna um landið en þau eru vön.

„Við kíktum þó með Miró í fjölskylduútilegu á Laugalandi og einnig í Fossatún yfir helgi þar sem við vorum heppin með veður. En í gegnum árin hef ég ferðast þó nokkuð í fyrirsætuverkefnum, farið á og inn í jökla, farið mörgum sinnum í Reynisfjöru og á helstu hverasvæði landsins, svo eitthvað sé nefnt.“

Hvað getur þú sagt mér um uppáhaldsstaðina þína?

„Uppáhaldsstaðirnir mínir á Íslandi eru fjölskyldubústaðurinn okkar í Grímsnesi sem mamma og stjúppabbi minn eiga, hann er svo kósý og það er alltaf nærandi að komast í náttúruna og heyra ekkert nema í vindinum, fuglunum og læknum sem rennur við bústaðinn. Svo á ég mér uppáhaldsstaði í Evrópu og Asíu, sem eru Provence í Suður-Frakklandi og Taíland, þangað gæti ég ferðast aftur og aftur.“

Gerir bæði teikningar og málverk

Hvað getur þú sagt mér um listina og verkin þín?

„Verkin mín skiptast í teikningar og málverk, hvor tveggja innblásin af hugarástandi sem er oftast ró, en ég trúi því að það sé það sem við flest leitum að; hugarró. Ég er mjög hrifin af línunni og flæðandi hreyfingunni sem fylgir henni í verkum mínum. Oftast má sjá portrett í verkunum en mér finnst það skemmtilegt form og við mannfólkið leitum líka mikið í andlitið, en það má vel vera að fyrirsætustarfið hafi þar áhrif.“

Vera Hilmars

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert