Heitustu áfangastaðirnir 2021

Náttúrufegurðin í Kosta Ríka er mikil.
Náttúrufegurðin í Kosta Ríka er mikil. Unsplash.com

Hvert skal ferðast árið 2021? Nú er ef til vill erfitt að hugsa hvert ferðinni skal heitið þegar heimurinn opnast á nýjan leik. En sá tími mun koma og tímaritið Forbes tók saman lista yfir áhugaverðustu staðina. Þeir segja að bókanir séu á uppleið, fólk sé bjartsýnt og áfangastaðir munu keppast við að veita örugga og góða upplifun.

„Margir eru að byrja að bóka núna því þeir vita að það verða margir um hituna loks þegar léttir til í heiminum.“

Sérfræðingar í ferðageiranum sjá fram á jákvæðar breytingar fyrir ferðamenn. „Fólk mun sækjast meira eftir því að heimsækja fáfarnari staði. Þá munu ferðamenn vera hugulsamari og ábyrgari þegar kemur að ferðalögum sínum og ferðaskrifstofur verða sveigjanlegri þegar kemur að því að breyta dagsetningum eða aflýsa ferðalögum.“

Forbes leitaði til fjögurra sérfræðinga sem allir starfa í ferðageiranum um hvert ætti að ferðast árið 2021.

  • Kenía - Kenía er fallegt land og býður upp á miklar víðáttur. Þá eru hótelin þar afar flott og vönduð. Landið hefur staðið sig vel með tilliti til kórónuveirunnar, þar eru allir hitamældir og prófaðir og öryggið í fyrirrúmi. 
  • Kosta Ríka - landið státar af einni lægstu dánartíðni vegna Covid-19 og yfirvöld hafa haldið vel á spöðunum. Þá er landið afar framarlega í að tala fyrir sjálfbærni í ferðageiranum og landvernd. Þá er Kosta Ríka fyrsta landið í Suður-Ameríku sem lögleiddi hjónabönd samkynhneigðra. 
  • Slóvenía - land sem hefur setið á hakanum hjá fjölmörgum ferðamönnum. Undurfagurt landslag setur svip sinn á land og þjóð. Höfuðborgin Ljubljana er þekkt sem grænasta höfuðborg Evrópu og geta loftlagsunnendur því vel við unað þar. Þá er Slóvenía einnig þekkt fyrir frábæra matargerð með sex Michelin veitingastaði.

Önnur lönd sem voru nefnd: Frakkland, Egyptaland, Katar, Suður-Afríka, Grikkland, Rúanda, Túnis, Maldíveyjar, Írland og Tyrkland.

Melania Trump heimsótti Kenía 2018 og klappaði fílum.
Melania Trump heimsótti Kenía 2018 og klappaði fílum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert