Kasakar hafa nú snúið vörn í sókn og í stað þess að banna komandi kvikmynd Sacha Barons Cohens um fréttamanninn Borat frá Kasakstan hafa þeir ákveðið að nýta sér myndina í markaðssetningu. Allt er það fyrir tilstilli ungs Bandaríkjamanns sem fór í skiptinám til Kasakstans. New York Times greinir frá.
Dennis Keen ákvað að fara til Kasakstans í skiptinám í stað þess að fara til Frakklands eða Spánar eins og margir skólafélagar hans. Ári seinna var kvikmyndin Borat: Cultural Learnings of America for Make Benifit Glorious Nation of Kazakhstan frumsýnd. Í kvikmyndinni leikur Cohen fréttamanninn Kasakstan sem kemur til Bandaríkjanna.
Ríkisstjórnin í Kasakstan bannaði sýningar á kvikmyndinni þar lendis og hótaði að kæra Cohen.
Sacha Baron Cohen birti stiklu fyrir framhaldsmynd um fréttamanninn Borat í lok september síðastliðins. Kairat Sadvakassov hjá ferðamálaráði Kasakstans segir í viðtali við New York Times að stjórnvöld í Kasakstan hafi ákveðið að aðhafast ekkert og leyfa myndinni að „deyja sínum náttúrulega dauða“.
En þá blandaðist Dennis Keen í málið. Eftir skiptinám sitt í Kasakstan fór Keen í framhaldsnám í Stanford þar sem hann lærði hjá prófessor frá Kasakstan. Á endanum ákvað hann að flytja til landsins og giftist konu þaðan. Hann vinnur nú sem leiðsögumaður um borgina Almaty og segir sjálfur að hann sé í rauninni bandarísk útgáfa af Borat.
Keen sá stikluna um nýju Borat-myndina og hugsaði hann með sér að hann yrði að gera eitthvað í málinu. Hann var nýbúinn að eignast sitt fyrsta barn og vildi að barnið sitt yrði stolt af Borat og landinu sínu í framtíðinni.
Keen og vinur hans, Yermek Utemissov, sem sér um að aðstoða erlend kvikmyndaver við að taka upp í Kasakstan, lögðu á ráðin og komu með hugmynd til ferðamálaráðs Kasakstans. Þeir fengu strax jákvæð svör frá ráðinu. Hugmyndin fól í sér að nýta ímynd Borats til markaðssetningar á Kasakstan. Í auglýsingunni nýta þeir setningu Borats, „Very nice“.
„Á tímum Covid, þegar fáir ferðamenn koma til landsins, er gott að sjá minnst á landið í fjölmiðlum. Þótt það sé ekki eins jákvætt og það gæti verið er gott að hafa það í umræðunni. Við myndum elska að fá að vinna með Cohen, jafnvel fá hann hingað til að taka upp kvikmynd,“ sagði Sadvakassov.