Fóru í haustreisu um Ísland

Gunnar Freyr og Kasia fóru með syni sína þrjá í …
Gunnar Freyr og Kasia fóru með syni sína þrjá í ferðalag um landið í haust. Hér má sjá elsta son þeirra Markús með foreldrum sínum. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Ljósmyndarinn Gunnar Freyr Gunnarsson fór í haustferð um landið með fjölskyldunni áður en þriðja bylgjan skall á. Hann og Kasia eiginkona hans sem starfar sem verkefnastjóri hjá Íslandsstofu eignuðust tvíburana Símon og Jakob í júlí og eru því í fæðingarorlofi. Fyrir áttu þau þriggja ára soninn Markús og skemmtu ungir sem aldnir sér í fríinu sem kom skemmtilega á óvart. 

„Það hefur verið rosalega skemmtilegt að ferðast um landið núna í haust. Litirnir hafa verið einstaklega fallegir og þetta er eitt uppáhaldstímabilið mitt að ferðast um Ísland. Á mörgum stöðum vorum við einu gestirnir og fengum þess vegna frábæra þjónustu alls staðar þar sem við komum. Þetta hefur í rauninni verið einstakt tímabil að ferðast um landið, því maður hefur fengið tækifæri til að hafa náttúruperlur alveg út af fyrir sjálfan sig sem er eitthvað sem auðvitað ekki gerist venjulega. Það hefur samt líka verið pínu dapurlegt á köflum að sjá sum hótel og staði lokaða og maður finnur fyrir hvað þetta ástand hefur mikil áhrif á samfélagið,“ segir Gunnar Freyr. 

Fjölskyldan hafði náttúruperlur Íslands út af fyrir sig.
Fjölskyldan hafði náttúruperlur Íslands út af fyrir sig. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Tóku þið eftir einhverjum ferðamönnum?

„Það voru alveg nokkrir ferðamenn, þó ekki margir. Ég hitti fjölskyldu frá Portúgal sem fylgir mér á Instagram og kemur hingað reglulega. Annars voru þetta mest heimamenn sem maður hitti.“

Gunnar segir dásamlegt að ferðast um landið á haustin.
Gunnar segir dásamlegt að ferðast um landið á haustin. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Það var ekki nýtt fyrir Gunnar Frey að ferðast um haust en hann starfar sem ljósmyndari. Hann hefur lengi langað að deila upplifuninni með fjölskyldunni og fékk fjölskyldan tækifæri til þess í haust þar sem konan hans er í fæðingarorlofi. 

„Okkur hefur alltaf langað til að ferðast í fæðingarorlofinu sem fjölskylda. Áður en faraldurinn byrjaði, þá var planið að fara í langt ferðalag erlendis, til dæmis „roadtrip“ á vesturströnd Bandaríkjanna eða í Evrópu. Þegar faraldurinn byrjaði þurftum við að endurhugsa þetta plan. Við vorum ákveðin að gera gott úr þessu og ákváðum bara að skella okkur í þetta ferðalag sem okkur hafði lengi dreymt um. Þetta var áður en þriðja bylgjan byrjaði hér á landi og við töldum okkur nokkuð örugg að ferðast um landið. Þetta var á tímapunkti áður en fólki var ráðlagt að ferðast ekki mikið á milli landshluta.

Við ferðuðumst um landið í tvær vikur og vorum meðal annars í fimm daga á Egilsstöðum sem var alveg æðislegt. Mikill gróður og ólýsanlegir lítir. Við vorum svolítið heppin að leggja af stað í lok september, rétt áður en að þessi „þriðja“ Covid-bylgja hófst. Þegar við komum aftur heim eftir tvær vikur voru allt í einu allir komnir með grímur og ástandið breytt. Þetta rétt slapp og ég held að við hefðum hætt við ef hafði verið mörg smit i gangi þegar við lögðum af stað.“

Hér er Kasia með tvíburana. Fjölskyldan þurfti að stoppa reglulega.
Hér er Kasia með tvíburana. Fjölskyldan þurfti að stoppa reglulega. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Hvað stóð upp úr?

„Ég myndi segja haustlitirnir á Austurlandinu. Við vorum í fallegum bústað í skóginum rétt fyrir utan Egilsstaði og það var alveg geggjað. Svo fannst eldri drengnum okkar rosalega gaman að hitta íslenska refinn hjá Fjallakaffi í Möðrudal og að sjá Grýluhellinn í Dimmuborgum. Það var líka æðislegt að heimsækja náttúruböð eins og Vök Baths og Jarðböðin við Mývatn. 

Gunnar Freyr Gunnarsson / Icelandic Explorer
Gunnar Freyr Gunnarsson / Icelandic Explorer Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Svo auðvitað að skoða alla þessa fallegu fossa. Alla þessa staði höfðum við alveg út af fyrir okkur sjálf. Við höfum lengi verið að lesa Íslandsbók barnanna og Markús var svo spenntur að loksins fá að sjá þessa staði í alvörunni.“

Gunnar Freyr og fjölskylda komu við á Egilsstöðum og létu …
Gunnar Freyr og fjölskylda komu við á Egilsstöðum og létu Vök Baths ekki fram hjá sér fara. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Breytti það ferðalaginu eitthvað að vera með stóra bróður og tvíburana meðferðis?

Áður en við lögðum af stað vorum við pínu kvíðin hvort að þetta myndi nokkuð vera allt of erfitt. Ættingjum og vinum fannst þetta svolítið skrítin hugmynd og hvort ekki væri bara miklu þægilegra að vera heima í húsinu okkar en okkur langaði rosalega að gera þetta og létum bara vaða. Ég væri að ljúga ef ég sagði að þetta hefði ekki var erfitt á köflum, en hins vegar getur það líka verið erfitt að vera heima með þrjú lítil börn, þar með talið litla tvíbura. Þetta fór fram úr öllum væntingum og var bara rosalega gaman. Það hjálpaði mikið að vera í náttúrunni og það virðist hafa mjög jákvæða áhrif á alla strákana þrjá. Ég held að það hefur haft mikla þýðingu fyrir hvað ferðalagið gekk vel.

Tvíburavagninn var með í för.
Tvíburavagninn var með í för. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Það eru auðvitað nokkur praktísk mál sem maður allt í einu þarf að pæla í þegar er verið að ferðast með þrjú lítil börn og svona marga barnabílstóla. Til dæmis eru ekki margir bílar sem taka svona mikinn búnað (ljósmyndagræjur, tvíburabarnavagn, ferðatöskur og fleira) og á sama tíma þrjá barnabílstóla í einni sætaröð. Við vorum með Land Rover Discovery frá Avís og það var geggjaður bíll fyrir okkur, öflugur jeppi og með nóg pláss.

Fjölskyldan hitti fáa ferðamenn á ferð sinni um landið.
Fjölskyldan hitti fáa ferðamenn á ferð sinni um landið. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Þriggja ára strákurinn okkar var eins konar „duddustjóri“ á milli tvíburanna. Þegar einhver fór að gráta í bílnum var hann fljótur að hugga og gefa þeim dudduna sína. Honum fannst þetta rosalega gaman og þetta var í rauninni gott tækifæri fyrir hann að mynda tengsl við nýju bræður sína. Maður þarf svo líka að pæla í vegalengdum. Lítil börn mega ekki vera of lengi í bílstól í einu og við þurftum þess vegna að skipuleggja vegalengdina vel og ekki keyra of langt í einu, gista á leiðinni og svona.

Annars vorum við eiginlega öll á sömu blaðsíðunni, okkur langaði í ævintýri, skoða fallega nátturu og njóta. Hann Markús var sérstaklega spenntur að fara í Dimmuborgir og okkur fannst það bara frábær hugmynd. Hann ákvað að vera vel búinn, fullyrti að hann þurfti að mæta í fullum sjóræningjabúnaði – ef hann skyldi nú hitta Grýlu.“

Markús fékk frí í leikskólanum til þess að ferðast um …
Markús fékk frí í leikskólanum til þess að ferðast um landið. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Það var lítið mál fyrir Gunnar og Kaju að fara í ferðalagið þó svo að því hafi fylgt smá fyrirhöfn og skipulag. Stóri strákurinn þeirra fékk frí í leikskólanum og Gunnar tók vinnuna með sér í fríið þar sem hann hann starfar sem sjálfstæður ljósmyndari og sérhæfir sig í að fara í ævintýri í íslenskri náttúru. 

„Ég veit að það er ekki fyrir alla að fara í svona ferð en ef maður rétta hugarfarið getur maður átt alveg einstaka upplifun sem fjölskylda í ferðalagi hringinn í kringum um landið.“

Flestir Íslendingar ferðast á sumrin en hvernig er að ferðast um Ísland á haustin? 

„Ég myndi segja að þetta er alveg geggjaður tíma til að ferðast um landið – kannski einn sá besti. Veðrið er enn þá ekki farið að trufla ferðina og haustlitirnir eru ótrúlega flottir. Haustið er í rauninni mjög stutt á Íslandi en einnig mjög ákaft. Það er rosalega gaman að sjá bláberjalyngið, birkitrén og skógana á Austur- og Norðurlandi í fullum „loga“. Fyrir ljósmyndara er þetta mjög góður tími til að ferðast þar sem birtan er svo falleg og leikur við fallegu litina. Almennt þegar ekki er heimsfaraldur í gangi myndi ég pottþétt mæla með að ferðast eins mikið og mögulega í september og byrjun október. Þetta er venjulega rólegur tími og góð tilboð í gangi á gististöðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert