Íslendingar á Tenerife virðast hafa skemmt sér gríðarlega vel á „silent disco“ eða „hljóðlausu diskóteki“ á íslenska barnum Nostalgíu í gærkvöldi.
Diskótekið var með óhefðbundnu sniði vegna kórónuveirunnar. Því voru gestir bara með sín heyrnartól og pössuðu að halda tveggja metra reglunni í dansinum. Áður en diskótekið hófst var boðið upp á nýsjálenskt lambakjöt en lambakjötsveislan var sú fyrsta síðan í mars.
Anna Kristjánsdóttir vélstjóri mætti að sjálfsögðu á diskótekið og sagði í daglegum morgunpistli sínum á facebook að fjörið hefði verið mikið.
„Á eftir var boðið upp á svokallað Silent Disco, kannski eins gott enda dans í návígi ennþá bannaður og því þurftu gestirnir að dansa og syngja hljóðlega. Það tókst með ágætum, þó með þeirri undantekningu að sumir sungu svo hátt að skar í mín viðkvæmu eyru og ég þurfti að nota heyrnartólin sem heyrnarskjól. Gestirnir máttu þó eiga það að gæta þess að tveggja metra bil væri á milli dansandi gestanna eins og sjá má af myndinni,“ skrifar Anna í pistli sínum.