Þingeyjarsveit hlaut í gær umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2020. Verðlaunin hlýtur sveitarfélagið fyrir uppbyggingu innviða við Goðafoss sem hefur staðið yfir síðastliðin ár.
Goðafoss er í Skjálfandafljóti í Bárðardal og er á meðal stærstu fossa á Íslandi. Hann á sér forna og fræga sögu. Hann þykir formfagur og myndrænn en klettar á skeifulaga fossbrúninni greina fossinn í tvo meginfossa sem steypast fram af hraunhellunni skáhallt á móti hvor öðrum.
Verkefnið var afar umfangsmikið og fól í sér endurbætur á umhverfi Goðafoss báðum megin til að vernda viðkvæma náttúru, bæta ásýnd staðarins og tryggja öryggi ferðamanna. Mjög vel var að verki staðið þar sem heimamenn og fagaðilar unnu náið saman allan tímann til að skapa umhverfi sem bæði er aðgengilegt og öruggt fyrir ferðamanninn. Útsýnið að fossinum er óhindrað og hægt að skoða hann allt árið. Á ársgrundvelli er áætlað að um 500 þúsund manns heimsæki staðinn.
Verkefnið var unnið á árunum 2013-2019 en Þingeyjarsveit hlaut fyrst styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2013 í deiliskipulag og landslagshönnun og síðan í sex ár eftir það í stíga- og pallagerð, merkingar, bílaplan og uppgræðslu.
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd.
Þau hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 26. sinn sem þau eru afhent. Verðlaunin eru nú í fimmta sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr framkvæmdasjóði ferðmannastaða og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi við umhverfisstefnu Ferðamálastofu og áherslur framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.
Verðlaunagripurinn ber heitið „Sjónarhóll“ og eru höfundar hans Jón Helgi Hólmgeirsson og Védís Pálsdóttir. Hugmyndin að baki gripnum er hvernig hægt er að upplifa náttúruna frá mismunandi sjónarhornum og þá einstöku upplifun hvers og eins að nálgast áfangastað.
Látúnstangir mynda þrívíðan hól úr uppréttum hæðarlínum. Línuteikningar bæta við hólinn hlíðum og árfarvegum. Hóllinn varpast í speglum sem mynda nýjar víddir eftir því hvaðan á er litið. Sjónarhóll er í senn náttúran, samspilið við hið manngerða og sjónarhornið sem upphefur upplifunina.