Í fyrsta þætti af fjórðu seríu af The Crown bregður Hofsá á Íslandi fyrir þar sem Karl Bretaprins var við veiðar í ánni. Prinsinn var tíður gestur hér á Íslandi og veiddi reglulega í ánni á 8. áratug síðustu aldar. Karl er þó ekki eini prinsinn sem hefur komið hingað til lands til að veiða en það hefur Harry Bretaprins einnig gert.
Harry Bretaprins kom hingað til lands árið 2013 og fór í veiði í Langá á Vesturlandi. Tilgangur ferðarinnar var þó ekki laxveiði eins og hjá föður hans heldur til að styðja góðgerðarsamtökin WalkingWiththeWounded en hópur á vegum samtakanna var við æfingar á Langjökli þetta sumarið.
Eins og kemur fram í The Crown var Karl Bretaprins staddur hér við veiðar þegar hann fékk fréttir af því þegar Louis Mountbatten var myrtur af IRA í ágúst 1979. Hann flýtti sér aftur til Bretlands í snarhasti í kjölfarið.
Árið 1998 á fundi um Atlantshafslaxasjóðinn sagði Karl að hann hefði mikinn áhuga á því að koma aftur til Íslands með syni sína, Harry og Vilhjálm, til þess að veiða lax. Ekki eru til heimildir um hvort Karl hafi láti drauminn rætast þó Harry hafi vissulega komið til landsins að veiða.