Veðrið á Íslandi gerði Clooney grikk

Hér má sjá George Clooney í myndinni The Midnight Sky …
Hér má sjá George Clooney í myndinni The Midnight Sky á Íslandi. Skjáskot/Youtube

Íslenskt frost og hríðarbylur á norðurslóðum var umræðuefni í þætti á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS á sunnudaginn. Það var enginn annar en Hollywood-stjarnan George Clooney sem sagði frá ótrúlega erfiðum aðstæðum við tökur á myndinni The Midnight Sky á Íslandi. 

Clooney leikur í og leikstýrir myndinni sem var að hluta til tekin upp á Íslandi í fyrra. Í viðtalinu lýsti fréttakona verkefninu sem einu mest krefjandi verkefni sem hinn reynslumikli leikari hefur tekist á við. Brot úr myndinni birtist á skjánum og lýsti fréttakonan veðrinu sem „alvöru snjóbyl á norðurslóðum“. 

„Þetta var í fyrstu vikunni í tökum,“ sagði Clooney. „Við vorum á Íslandi og við fórum út. Það var 40 stiga frost og vinhviðurnar 31 til 35 metrar á sekúndu. Ég var að gera ýmislegt án hlífðargleraugna þannig að augnlokin á mér frusu eftir rúmlega mínútu. Ég gat aðeins verið í tökum svo og svo lengi. Svo þurfti ég að fara inn og nota hárblásara til að opna augun til þess að fara út aftur.“

Tökurnar á Íslandi hófust í október í fyrra og fóru fram á Skálafellsjökli. Myndin verður frumsýnd í desember á Netflix. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert