Skógareldar loga nú á Fraser-eyju undan ströndum Ástralíu. Erfiðlega hefur gengið að ná stjórn á eldunum og hafa nú um 40% af þeim heimsminjum sem eru á heimsminjaskrá UNESCO á eyjunni brunnið.
Eldarnir hafa logað á eyjunni í meira en sex vikur og tætt í sig stóran hluta af einstökum skógi hennar. Hitabylgja gengur nú yfir Ástralíu og í gær mældist hitinn 43 gráður.
Eyjan er þekkt fyrir stóran stofn dingóhunda og var skráð á heimsminjaskrá UNESCO fyrir einstaka regnskóga sína, vötn og flókið kerfi sandalda sem er sífellt í mótun. Hún er gríðarlega vinsæll sumardvalarstaður Ástrala.