Bjóða frítt flug til Havaí

Movers and Shakas er ætlað þeim sem geta unnið vinnu …
Movers and Shakas er ætlað þeim sem geta unnið vinnu sína hvar sem er í heiminum. AFP

Stjórn Havaíríkis í Bandaríkjunum býður nú frítt flug til ríkisins til þeirra sem vilja flytja til eyjanna og vinna fjarvinnu sína þaðan. Ríkið kynnti á dögunum verkefnið Movers and Shakas en tilgangur þess er að draga úr atvinnuleysi og örva hagkerfið.

Verkefnið er samstarf hins opinbera, fyrirtækja og háskóla í ríkinu. „Núna þegar margir velja að vinna fjarvinnu hafa opnast tækifæri fyrir fyrrverandi íbúa Havaí til að snúa aftur heim að vinna og fyrir fjölskyldur að búa á Havaí og vinna þaðan í lengri tíma en ella. Við teljum að þetta verkefni muni laða að sér marga brottflutta Havaíbúa og aðra sem vinna fjarvinnu og eru í leit að hlýju umhverfi,“ sagði Jason Higa sem leiðir verkefnið. 

Þeir fyrstu 50 sem sækja um að flytja til Havaí í gegnum verkefnið fá frítt flug til og frá eyjunni. Allir sem sækja um að koma verða að skuldbinda sig til þess að búa á Havaí í að minnsta kosti 30 daga. 

Þeir sem verða samþykktir inn í verkefnið munu þurfa að inna af hendi nokkrar klukkustundir á viku í verkefni hjá góðgerðarsamtökum á Havaí. 

CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert