„Við fórum oft naktar í sjóinn á kvöldin“

Ólöf saknar þess að geta ekki ferðast. Hún er með …
Ólöf saknar þess að geta ekki ferðast. Hún er með nóg að gera og reynir að njóta lífsins eins vel og hún getur. mbl.is/Eva Schram

Ólöf Sverrisdóttir leikkona er með mörg járn í eldinum þessa dagana. Hún er á lokametrunum í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands og starfar einnig á Borgarbókasafninu og er að undirbúa sagnakaffi og ljóðakaffi fyrir næsta ár ásamt því að semja ljóð og margt fleira. 

„Ég er líka búin að vera að taka upp sögur sem eru á vefsíðu bókasafnsins en þar segi ég sögur sem Sóla sögukona. Sóla kemst ekki á sögubílnum til barnanna vegna kórónuveirunnar svo hún segir þeim sögur á vefnum í staðinn. Ég er að kenna krökkum leiklist hjá Sönglist en svo er ég nýbúin að vera með tvö námskeið í ritlist hjá Endurmenntun háskólans. Þau urðu að vera á Zoom vegna ástandsins en voru ótrúlega skemmtileg þrátt fyrir það. Fullorðinsleiklistarnámskeiðin urðu að bíða um sinn. Svo er ég reyndar að fara að klára eða fínpússa barnaleikrit sem ég fékk styrk til að skrifa. Svo er ég að semja ljóð daglega sem ég birti á Facebook. Eftir jólin fer ég svo í námsleyfi til að klára meistaranámið í ritlist.“

Ertu til í að rifja upp skemmtilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Skemmtilegasta ferðalagið er örugglega lestarferðalag sem við vinkonurnar fórum frá Englandi þegar við vorum þar í leiklistarnámi. Tara vinkona er ensk og við höfðum ákveðið að fara svona hálfgerða hippaferð til Frakklands og síðan til Spánar og Portúgals. Við vorum með tjald, svefnpoka og gítar sem Tara kunni nokkur grip á. Við ætluðum nefnilega að syngja á götuhornum ef við yrðum blankar. Við gistum í París eina nótt á frekar lélegu hosteli, fengum okkur franskan morgunmat en fórum svo áfram til Spánar. Við stoppuðum bara örstutt í Barselóna því við ætluðum að gista hjá vini mínum í Moreira á Spáni. Ég hafði kynnst honum í námsferð frá Englandi en hópurinn minn í leiklistarskólanum hafði æft „Hús Bernördu Alba“ eftir Garcia Lorca í húsinu hans á Spáni. Þá bauð hann okkur húsið sitt ef við kæmum til Spánar um sumarið.

Þetta var stór villa með einkasundlaug og vorum við þar einar. Við fórum oft naktar í sjóinn á kvöldin en það er enskur siður sem vinkona mín vildi viðhafa á hverju kvöldi. „Skinny dipping“ kalla þeir það og þetta var alveg nýtt fyrir mér. Ég var mjög hissa á þessum sið þar sem mér fannst Bretar frekar siðavandir og hneykslaðir á mörgu sem mér fannst sjálfsagt. Reyndar voru marglytturnar varhugaverðar á kvöldin og endaði Tara með bruna á fótunum eftir þær en ég slapp alveg. 

Kvöldið áður en við héldum áfram fórum við í mat með Spánverjanum og lofaði ég að koma aftur til hans í lok ferðalagsins og vera viku í viðbót. Við Tara héldum áfram niður Spán og var næsta stopp Granada. Þar tjölduðum við á tjaldstæði með sundlaug. Þá var hitinn komin upp í 40 gráður og fór upp í 46 gráður einn daginn. Við vöknuðum í svitabaði, hentum okkur í laugina og vorum þar eða í loftkældri móttökunni til klukkan fimm, en þá var hægt að fara að hreyfa sig.

Ólöf á ferðalagi sem hún fór með vinkonu sinni Töru.
Ólöf á ferðalagi sem hún fór með vinkonu sinni Töru.

Einn daginn ákváðum við að fara í Alhambra-höllina en komum ekki fyrr en klukkan sex og þá var búið að loka. Svo heppilega vildi til að með okkur var strákur frá Hollandi sem við kynntumst á tjaldstæðinu. Hann kunni spænsku og einhvern veginn tókst honum að fá vörðinn til að fara með okkur í einkaleiðangur í höllina og það var stórkostleg upplifun. Það voru engir túristar heldur vorum við alein með einkaleiðsögn.

Fyrir nokkrum árum fór ég aftur í Alhambra-höllina og sá að hann hafði ekki farið út um allt með okkur en samt á aðalstaðina.

Næsta kvöld fórum við að sjá túristasýningu með flamencodönsum og spænskum söngvum. Síðasta kvöldið fórum við svo í hús Garcia Lorca og þar var farið með ljóð á spænsku eftir Lorca auðvitað og gamlar konur og kornungar stelpur dönsuðu flamenco af svo mikilli innlifun að það var dásamlegt á að horfa. Við vorum sammála um að atvinnudansararnir í túristasýningunni náðu ekki rétta spænska andanum sem þessar voru með í blóðinu.

Við fórum svo til Gíbraltar þar sem við sváfum á ströndinni. Um morguninn kom lögreglan og rak okkur af sandströndinni en þá fluttum við okkur á aðra klettaströnd þar sem við vorum ekki fyrir neinum. Þarna kynntumst við fullt af skemmtilegu fólki. Við kveiktum eld á kvöldin og sungum, drukkum og dönsuðum. 

Mamma Töru var á leikferðalagi á Gíbraltar en þetta er auðvitað enskt yfirráðasvæði og við fórum á hótelið hennar í sturtu og borðuðum þar stundum. Gíbraltar var hápunktur ferðarinnar fyrir mig. Ég synti mikið og varð fyrir andlegri upplifun þar sem ég lá á bakinu í söltum sjónum en þarna flýtur maður eins og korktappi út af saltinu og getur slakað alveg á. Þarna fannst mér ég renna í klettana og náttúruna og upplifði mikla hamingjutilfinningu. Það er nú kannski önnur og meiri saga en þessi upplifun hefur litað lífið síðan.

Við fórum síðan til Albufeira í Portúgal en þar gáfumst við upp á tjaldstæðinu og leigðum okkur lítið hús við ströndina. Þarna fékk Tara bónorð frá milljónamæringi sem hún mér til mikillar undrunar þáði ekki. Allavega fannst mér að hún hefði átt að þiggja farið með einkaþotunni til Ítalíu. Í staðinn héldum við heim eftir nokkra daga með lestinni. Eina sem ég man af þeirri ferð er að við sváfum á brautarpallinum í Sevilla og svo fór Tara til Englands en ég aftur til Moreira. Þar dvaldi ég í vellystingum í viku. Spánverjinn bauð mér á lúxusveitingastaði og fór með mig út á bátnum alla daga þar sem ég synti og kafaði á meðan hann veiddi kolkrabba á spjót. Ég var svo heilluð af þessu lífi þarna að ef ég hefði ekki verið svona ákveðin að verða leikkona væri ég sennilega forrík „senjora“ á Spáni.“

Hvert er fallegasta hótel sem þú hefur gist á?

„Ég held að fallegasta eða allavega skemmtilegasta hótelið hafi verið það sem ég gisti á í Southhampton, Englandi, en þar fengu listamenn leyfi til að hanna eitt herbergi hver. Ég sá örugglega inn í þrjú til fjögur herbergi og þau voru með mismunandi stíl og sum með málverk á veggjunum en önnur með styttum og útskornum rúmstöplum. Frammi á göngum og í anddyri var líka allt skreytt og málað. Þetta lét ekki mikið yfir sér að utanverðu nema mig minnir að það hafi verið fjólulitað og ég man ekkert hvað það hét.“

Hver er uppáhaldsveitingastaðurinn þinn í útlöndum?

„Þegar ég var við nám í Exeter fannst okkur dóttur minni staður sem heitir Dinosaur Café langbesta veitingahúsið. Þetta var tyrkneskur og grísk/albanskur grænmetisstaður og þar var hægt að fá algjört góðgæti. Þetta var bara lítill og sætur staður og hægt að sitja úti en það var stjanað við okkur eins og við værum prinsessur. Við fórum stundum nokkur þangað í hádeginu frá háskólanum en þá var stundum ansi þétt setið.“

En fallegasta ströndin?

„Fallegasta ströndin var örugglega strönd ekki langt frá Moreira þar sem við fórum nokkrum sinnum og fengum okkur að borða á fiskiveitingastað. Þar var ekki hægt að komast nema á báti og þar var líka hár klettur sem hægt var að hoppa af.

Vatnið var svo tært þarna að maður horfði á allavega lita fiskana synda þegar maður nálgaðist ströndina. Önnur strönd sem mér fannst falleg er ströndin fyrir utan Lindos á Ródos, Grikklandi. Hún er alveg hvít og slétt og útsýnið upp í hæðirnar og yfir til Tyrklands er alveg dásamlegt. Einhver mystík yfir þessum stað.“

Áttu þér draumaferðalag?

„Já, ég á mér draumaferðalag til Suður-Ameríku en ég var alveg ákveðin að fara til Brasilíu eða Perú þegar ég var yngri því ég elskaði flaututónlistina frá Perú og svo bara alla suðurameríska tónlist. Ég var svo tengd við indíánamenningu og músík í þá daga. Ég hef ekki komist þangað ennþá en nú hafa Balí, Santorini og fleiri eyjur á Grikklandi og Keralahérað á Indlandi bæst við.“

Ólöf segir að hún væri alveg til í að ferðast mun meira. 

„Ég get samt orðið leið á söfnum og túristastöðum. Ég held að mér henti best að vera um kyrrt í smá tíma á hverjum stað og njóta. Fá tilfinningu fyrir staðnum og upplifa andrúmsloftið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert