Frægt íslenskt hús fæst gefins

Húsið er í slæmu ástandi og þarfnast umfangsmikilla viðgerða og …
Húsið er í slæmu ástandi og þarfnast umfangsmikilla viðgerða og endurbóta. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gamalt íbúðarhús á Höfða í Skagafirði fæst gefins gegn því að vera sótt og gert upp á nýjum stað. Húsið á sér langa sögu en í því voru meðal annars kvikmyndirnar Börn náttúrunnar og Bíódagar teknar upp. 

Húsið var byggt árið 1892 og er því meira en 120 ára gamalt. Sökum aldurs er það friðað og þýðir það að hvorki má rífa það né breyta á nokkurn hátt án samþykkis Minjastofnunar.

Húsið er auglýst á vef Minjastofnunar í dag en þar kemur fram að núverandi eigendur hafi ekki séð sér fært um að viðhalda húsinu og óskuðu eftir heimild til að rífa það. Eigendur og Minjastofnun komust að því samkomulagi að auglýsa húsið gefins ef einhver vildi flytja það af staðnum og gera upp. 

Það þarf þó að eiga sér stað fyrir 1. júní 2021 og þurfa nýir eigendur að gera áætlun um uppbyggingu á nýjum stað. Húsið er illa farið og þarfnast mikilla viðgerða og endurbóta en áhugasamir geta sótt um styrki til Húsafriðunarsjóðs. Húsið er skráð 52,7 fermetrar en efri hæð hússins er undir súð. 

Nánar er hægt að lesa um húsið á vef Minjastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert