Ódýrustu og bestu ferðamannastaðirnir

Fyrir utan þinghúsið í Búenos Aíres í Argentínu.
Fyrir utan þinghúsið í Búenos Aíres í Argentínu. AFP

Nú þegar bóluefni er handan við hornið má láta sig dreyma um frí á fjarlægum slóðum. Staðir sem búa yfir mikilli menningu, fallegri náttúru og góðum mat þurfa ekki að vera dýrir. Á vef Condé Nast Traveller má finna tíu staði sem eru bæði spennandi en um leið ódýrari en margir sambærilegir staðir. 

Alentejo í Portúgal

Gleymdu Portó og Lissabon, Alentejo-svæðið er bæði fallegt og ódýrt. Á svæðinu eru fallegir strandbæir og hægt að fá dásamlegan mat fyrir lítið. Svæðið hefur oft verið ofarlega á breskum lista yfir ódýra áfangastaði. 

Höfðaborg í Suður-Afríku

Það er kannski dýrt að fljúga þangað fyrir Íslendinga en þegar til borgarinnar er komið er hægt að komast upp með að eyða litlu. Ekki þarf að fara langt út fyrir borgina til þess að komast í góða vínsmökkun. 

Brimbrettakappar í Höfðaborg.
Brimbrettakappar í Höfðaborg. AFP

Bajkal­vatn í Síberíu

Bajkal­vatn er dýpsta vatn heims og það stærsta ef horft er til rúm­máls. Þá er það á heimsminja­skrá UNESCO. Síbería skartar sínu fegursta á veturna en það margborgar sig þó að splæsa í túlkaþjónustu. 

Vilníus í Litáen

Borgarferð til Vilníus var valin ódýrasta borgarferðin í Evrópu af Travel Supermarket í fyrra. Í borginni er hægt að drekka ódýrt áfengi og skemmtanalífið sagt gott. Gamli bærinn stendur líka fyrir sínu ef fólk vill kynna sér söguna og skoða fallega byggingarlist.

Jólastemning í Vilníus.
Jólastemning í Vilníus. AFP

Búenos Aíres í Argentínu

Efnahagslífið í Argentínu hefur ekki verið blómlegt á undanförnum árum og kemur það sér vel fyrir ferðamenn í höfuðborginni. Ódýrara er að dvelja í borginni en fyrir utan hana. 

Búenos Aíres í Argentínu.
Búenos Aíres í Argentínu. AFP

Júkatanskagi í Mexíkó

Svæðið í suðausturhluta Mexíkó er ekki bara fyrir þá ríku. Ódýrt er að kaupa sér götubita og kaldan bjór auk þess sem það kostar ekki mikið að taka ferju á eyjuna Isla Holbox þar sem má sjá flamingóa. 

Dahap í Egyptalandi

Í strandbænum má gera góð kaup og er staðurinn afar vinsæll meðal þeirra sem vilja kafa. 

Hanoí í Víetnam

Það er 55 prósent ódýrara að búa í Hanoí en í London sem ætti að gefa einhverja mynd af verðlaginu. Þar má einnig finna einn besta götubita í heimi. Hann er þó ekki bara góður heldur einnig afar ódýr. 

Brúðhjón í gamla bænum í Honoí.
Brúðhjón í gamla bænum í Honoí. AFP

Tíblisi í Georgíu

Áfengi, Aribnb og almenningssamgöngur kosta ekki mikið í Georgíu. Þrátt fyrir að vera austarlega er margt sem minnir á evrópska stórborg í Tíblisi. 

Gamli bærinn í Tíblisi.
Gamli bærinn í Tíblisi. AFP

Góa á Indlandi

Í Góa á Suður-Indlandi er hægt að lifa eins og kóngur fyrir ekki mikið. Áfangastaðurinn er ekki bara fyrir unga bakpokaferðalanga þar sem það er hægt að fá fyrsta flokks þjónustu og lúxus fyrir lítið. 

Á ströndinni í Góa á Indlandi.
Á ströndinni í Góa á Indlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert