Dóra Einarsdóttir búningahönnuður hefur unnið við búninga óslitið í rúmlega fjörutíu ár. Hún hefur komið víða við og unnið við kvikmyndir, leikhús, óperur, sjónvarp, tónlistarmyndbönd og alþjóðlegar stórar markaðsherferðir sem birtust í sjónvarpi, kvikmyndahúsum, flugvöllum og fleira. Starfið hefur falið í sér alls konar ferðalög svo Dóra kann að segja skemmtilegar sögur af því.
Vegna þess hve vinnustundirnar yfir daginn eru margar í búningavinnunni hefur hún nú alfarið snúið sér að innanhússhönnun. Hún er að hugsa um ferðalög framtíðarinnar og ætlar að heimsækja Ítalíu þegar tími gefst til þess.
„Eftirminnilegasta ferðalagið var þegar ég var að vinna við kvikmyndatökur í Acapulco í Mexíkó og við vorum á ferðinni frá borginni eftir tökur á næsta tökustað sem var í um 580 kílómetra fjarlægð. Hluti af hópnum fór með þyrlu en við hin með bílum, trukkum og rútum með öll tæki og tól.
Þá verðum við vör við eftirför bíla og mótorhjóla. Sem endar með að þeir hálfkróa okkur af og ætla að ræna kvikmyndabúnaðinum. Þarna voru byssur og þeir með klúta sem þeir bundu yfir hálft andlitið. Þetta var rosalegt og við með hundruð milljóna af kvikmyndabúnaði og græjum. Litli búningahönnuðurinn frá Íslandi læddist út úr jeppanum sem ég var í og fór inn í búningarútuna. Þar fann ég hvítt karlmannsbómullarföðurland, tók skaftið af moppu og hengdi föðurlandið á það. Ég kom þessu út um bakglugga rútunnar og flaggaði blessuðu föðurlandinu!
Þegar glæpamennirnir voru að hlaða græjum á milli bíla erum við allt í einu umkringd af mexíkóskri lögreglu. Allt varð brjálað og skotið af byssum, einhverjir glæpamenn komust í burtu á mótorhjólunum en restin var handtekin. Það hafði sem sagt bíll keyrt framhjá meðan á öllu þessu stóð og hringt í lögregluna og sagt að það væri hvítur neyðarfáni í bílaþyrpingu á mótorveginum.
Blessað föðurlandið!“
Hver er uppáhaldsborgin þín?
„Barselóna er uppáhaldsborgin mín en ég elska menninguna, söfnin, byggingarnar, garðana, fólkið og matarmenninguna. Borgin er mátulega stór, stutt í sjóinn og á fallegar strendur og dásamlegt að keyra út í sveit í öll fallegu litlu þorpin. Litlu sjávarþorpin eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar er yndislegt fólk. Gaman að skreppa út á bát og sigla meðfram strandlengjunni.“
Hvert ætlarðu að ferðast næst?
„Fyrsta ferðalagið mitt eftir kórónuveiruna verður til New York að hitta vini og samstarfsmenn. En ég hef ekki haft áhuga á ferðalögum til Bandaríkjanna eftir að Trump tók við forsetaembættinu.“
Áttu upphaldshótel?
„Þau eru mjög mörg lítil fallega hönnuð leynihótel víðs vegar um heiminn, sem ég vil ekki gefa upp því ég vil áfram vera eini íslenski gesturinn. Ég bý aldrei á ráðstefnuhótelum eða stórum hótelum.“
Dóru finnst best að versla í Saks á fimmtu breiðgötu New York-borgar. Hana dreymir um ferðalag til Ítalíu með góðum vinum.
„Mig langar að keyra um Ítalíu og njóta sveitarinnar í Toskana. Ég myndi vilja leigja hús við Gardavatnið og sigla og njóta ítalskrar menningar. Fara á tónleika í Colosseum í Verona. Það er draumaferðin mín sem mætti alveg standa yfir í nokkra mánuði.