Birta Þöll Sveinbjörnsdóttir hefur alla tíð stundað útivist en áhuginn jókst bara ef eitthvað er þegar hún var nemi í leiðsögumannaskólanum. Hún er líka menntuð sem ljósmyndari og samtvinnar áhugamálin sín þegar hún ferðast til að mynda fólk úti í náttúrunni.
„Ég hef alltaf haft áhuga á útivist, foreldrar mínir voru duglegir að ferðast með okkur systkinin innanlands, á sumrin fórum við í veiði og flökkuðum á milli íþróttamóta. Á veturna fórum við á skíði og snjóbretti en áhugi á fjölbreyttari útivist kviknaði eftir að ég byrjaði í Leiðsöguskólanum. Þar kynnist ég fullt af fólki sem var með alls konar áhugamál og ég fékk nýja sýn á útivist,“ segir Birta um áhuga sinn á útivist.
„Í dag hef ég áhuga á öllu sem snýr að því að vera úti í náttúrunni, að hreyfa mig og prófa nýja hluti. Ég stunda til dæmis brimbretti, fjallabretti (e. splitboard), snjóbretti, hlaup, hjól og göngur. Ég fór í fyrsta utanvegahlaupið mitt yfir Snæfellsjökul þegar ég var 16 ára og síðan þá hef ég hlaupið nokkur hlaup, þar á meðal Jökulsárhlaupið og Laugavegshlaupið. Splitboard eða fjallabretti er vaxandi áhugamál á Íslandi og ég keypti mitt fyrsta fjallabretti núna í vetur. Ég hef verið að fara upp í Bláfjöll að ganga og svo langar mig að fara upp á Hvannadalshnjúk, Heklu, Snæfellsjökul og Hornstrandir þegar það er kominn nægur snjór.
Í Leiðsöguskólanum lærði ég um sögu Íslands, náttúru og jarðfræði. Kafað var ofan í sögu og náttúru Íslands á annan hátt en var gert þegar ég var í framhaldsskóla. Nemendur skiptust á reynslusögum og upplifunum sem þeir höfðu átt einhvers staðar á landinu sem er ekki fjallað um í bókum. Í leiðsöguskólanum var líka mikið um vettvangsferðir, við ferðuðumst í rútum, fórum í gönguferðir, jöklaferðir og gistum í snjóhúsi í Bláfjöllum um hávetur. Sumir myndu segja að þetta væri eitthvað sem fólk lærir í framhaldskóla en raunin er að þetta kennt á allt annan hátt í skólanum. Það var farið svo djúpt í alla hluti tengda Íslandi, ótrúlega áhugavert nám.“
Hvernig tvinnast það saman að vera ljósmyndari og leiðsögumaður?
„Ég lauk námi í ljósmyndun frá Norsk Fotofagskolen í Þrándheimi vorið 2018 og var mikið að taka myndir af ferðamönnum við alls konar tilefni. Ég hef til dæmis verið að mynda bónorð um miðja nótt við Skógafoss og brúðkaup með fólki héðan og þaðan úr heiminum á ótrúlegustu stöðum á Íslandi. Einn daginn hugsaði ég með mér: af hverju tvinna ég þetta ekki saman og stofna fyrirtæki þar sem ég bý til ferðir fyrir fólk og mynda síðan ferðina fyrir það? Þarna ákvað ég að sækja um í Leiðsöguskólanum og finnst það passa mjög vel saman. Þetta er það sem ég vil vinna með í framtíðinni.“
Birta segir að áhugi hennar á náttúrunni komi fram í myndum hennar.
„Ég elska þetta fallega landslag, náttúruna og breytileikann í veðrinu á Íslandi sem ég held að sjáist á myndunum mínum. Orkan og fegurðin í landslaginu veitir mér innblástur og gerir myndirnar lifandi og skapar meiri dýpt.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?
„Ég á nokkra uppáhaldsstaði á Íslandi, minn allra mesti uppáhaldsfoss er Kvernufoss á Suðurlandi og Vestfirðir eru algjör paradís. Sundlaugin í Heydal slær öllum sundlaugum á landinu við, mæli með henni.“
Öll plön breyttust hjá Birtu í sumar en hún gerði þó gott úr málunum og naut sumarsins í botn.
„Þetta átti að vera mitt stærsta ljósmyndasumar og ég ætlaði af stað í leiðsögumennskuna af fullum krafti en eins og hjá flestum sneri Covid öllum mínum plönum á hvolf. Ég nýtti í stað þess tímann í að ferðast um Ísland og kynnast stöðum sem ég hafði ekki ferðast til áður. Ég leitaði uppi ævintýri og nýja staði til að mynda. Ég fór í tvær ferðir á Hornstrandir að mynda eina hlaupaferð og eina gönguferð með Aurora Arctica. Á leiðinni á Hornstrandir tók ég tjaldið með mér og gisti fimm nætur á leiðinni á Ísafjörð og hafði það að markmiði að koma við í öllum sundlaugunum á Vestfjörðum, það tókst. Ég var búin að undirbúa þessa ferð vel og var búin að skrifa niður fullt af punktum fyrir hana. Í leiðinni tók ég myndir fyrir ljósmyndasýningu sem ég ætlaði að halda í desember en henni verður frestað fram á næsta ár. Sýningin sem ég ætla að halda fær nafnið VATN.“
Er eitthvað sem þig langar að gera í vetur á Íslandi?
„Í vetur þarf ég að vinna svolítið mikið til þess að vinna upp takmarkaða vinnu í sumar og til þess að hafa efni á heimastúdíóinu sem ég ætla að reyna opna í janúar. Þar mun ég bjóða í fyrsta skipti upp á nýburamyndatökur. En ég hef aðallega verið að taka myndir úti í náttúrunni fram að þessu. Ég ætla líka að vera dugleg að ganga á fjöll á nýja fjallabrettinu mínu í góðum félagsskap og njóta náttúrunnar.“
Hvert langar þig að ferðast þegar það verður óhætt að ferðast aftur til útlanda?
„Ég er orðin mjög meðvituð með utanlandsferðir og er að reyna að minnka þær til þess að leggja mitt af mörkum til loftslagsmála. Ég mun þó ferðast til Bandaríkjanna í apríl-maí þar sem ég er að fara að mynda brúðkaup hjóna sem komu í myndatöku til mín hér á Íslandi í
fyrra. Ég mun svo nýta ferðina og heimsækja bróður minn sem býr í Atlanta.“
Birta segir það draum sinn að starfa sem „elopement“-ljósmyndari en þá myndi hún ferðast til þess að mynda pör hvar sem er í heiminum. „Parið sem ég er að fara að mynda vorið 2021 bókaði mig einmitt eftir myndatökuna sína á Íslandi þegar þau trúlofuðu sig hér við Skógafoss 2019.“