Ein af stóru spurningunum þegar maður bókar flug er á hvaða farrými maður ætlar að vera. Fyrir suma er ódýrasta sætið alltaf besta sætið en með dýrari sætum fylgja oft fríðindi sem er notalegt að njóta þegar maður ætlar að gera vel við sig.
En hver er nákvæmlega munurinn? Verður flugið eitthvað betra ef maður kaupir sér dýrara sæti spyrja margir sig eflaust. Það fer algjörlega eftir því hvern þú spyrð, en kampavínsglas á fyrsta farrými hljómar alltaf vel.
Mikilvægt er að hafa í huga að sætin og fríðindin sem þeim fylgja eru mismunandi eftir flugfélögum, en þó keimlík.
Almennt farrými
Almennt farrými eða „venjulegt sæti“ kallast oft coach, economy class eða eitthvað svipað. Það eru ódýrustu sætin og stundum fylgir þeim ekki farangursheimild. Þú getur sjaldan valið þér sæti fyrir fram nema greiða aukalega fyrir það. Stærsti munurinn á þessum sætum og þeim dýrari er pláss, eða plássleysi öllu heldur. Þau eru aðeins minni og meiri líkur á að sessunautur þinn klessist smá upp við þig. Þessi sæti eru best þegar þú vilt velja ódýrasta kostinn til að koma þér frá A til B.
Viðskiptafarrými
Viðskiptafarrými hljómar mjög fagmannlega en er í raun bara stigið á milli ódýrustu og dýrustu sætanna. Þeim fylgja alla jafna nokkur fríðindi, eins og til dæmis aðgangur að „lounge-i“ fyrir flug. Sætin á viðskiptafarrými eru yfirleitt töluvert stærri og þægilegri og tilvalin fyrir þá sem vilja njóta flugferðarinnar og gera vel við sig.
Hjá sumum flugfélögum er viðskiptafarrýmið orðið svo gott að það er hægt að leggja sætin alveg niður og heill hellingur af fríðindum fylgir með, eins og drykkur fyrir flug, almennilegur matur og ekkert kostar aukalega eins og á almenna farrýminu.
Fyrsta farrými
Fyrsta farrými er veisla út í gegn. Ef þú ætlar að gera virkilega vel við þig og ert á ferðalagi af einhverju sérstöku tilefni er fyrsta farrýmið valkosturinn fyrir þig. Það er þó einn hængur á en fyrsta farrými er oft frátekið fyrir frægt og efnamikið fólk. Þú þarft því að skipuleggja það með nokkrum fyrirvara ef þú ætlar að fljúga á fyrsta farrými.
Fyrsta farrými er viðskiptafarrými nema bara 100 sinnum meiri lúxus, enda kostar allt að fimm sinnum meira að bóka á fyrsta farrými en almennu farrými.