Árið 2020 fer í sögubækurnar fyrir margra hluta sakir og meðal annars vegna þess að það var mjög erfitt að ferðast á þessu ári. Árið byrjaði vel og stefndi í gjöfult ár fyrir ferðalanga þessa heims. Kórónuveiran setti svo heldur betur mark sitt á ferðalög. Þótt fæstir hafi farið til útlanda frá því í mars á þessu ári var fólk duglegt að ferðast um Ísland.
Mest lesna frétt ferðavefsins á árinu er um lúxusvillurnar sem systurnar Signý og Sigyn eiga í Grímsnesinu.
Fyrrverandi vélstjórinn Anna Kristjánsdóttir flutti til Tenerife haustið 2019 og skrifar pistla á hverjum degi á facebooksíðu sinni. Pistill Önnu þegar hún hafði þraukað sex mánuði í paradís, eins og hún kallar Tenerife, vakti sannarlega mikla athygli.
Það er alltaf fréttnæmt þegar stórstjörnur koma hingað til lands. Leikarinn George Clooney kom hingað í október í fyrra og lenti heldur betur í slæmu veðri. Hann segir frá því að hann hafi upplifað 40 stiga frost í 31 metra á sekúndu.
Tenerife hefur verið vinsælt umfjöllunarefni á árinu enda margir Íslendingar búsettir þar og margir Íslendingar sem elska að sækja eyjuna heim. Fjórða mest lesna frétt ferðavefsins er slæmar fréttir frá Tenerife þegar fyrsta kórónuveirusmitið greindist á eyjunni.
Húsbílar voru fyrirferðarmiklir í umræðunni um ferðalög sumarsins enda ófáir sem annaðhvort keyptu sér húsbíl eða leigðu. Íþróttafræðingurinn Jónína Benediktsdóttir var ekki á þeim buxunum að leigja sér húsbíl og sagðist hreinlega vorkenna fólki í húsbílum.