Eyrún Lýdía Sævarsdóttir er með endalausa ævintýraþrá og hefur ferðast um allan heiminn ein. Ferðabakterían hefur lengi blundað í Eyrúnu en hún hafði ekki ferðast mikið um Ísland fyrr en árið 2016 þegar hún störf sem leiðsögumaður. Í kjölfarið kviknaði einnig áhugi á ljósmyndun sem fékk hana til að langa til að ferðast enn meira.
„Áhugi minn á því að ferðast kviknaði líklegast þegar ég var 14 ára og fór með foreldrum mínum til Kanada og við leigðum bíl, keyrðum yfir landamæri Bandaríkjanna og enduðum í New York. Það er alveg ógleymanleg ferð. Þegar ég var 18 ára ferðaðist ég ein í fyrsta skipti til Spánar í spænskuskóla.
Síðan þá hef ég ferðast um Evrópu í rútu, unnið í brimbrettaskóla á Tenerife, flogið svifvængjaflugi yfir Ríó. Synt með svínum á Bahama og óvart sparkað í hákarl, hangið úr lest í Srí Lanka og baðað fíl. Ég hef farið á bak kameldýrs í Marokkó, borðað tvöfalda þyngd mína af mat í Mexíkó og Víetnam. Verið blessuð af leigubílstjóra í Jamaíku og þar smakkaði ég besta kjúkling ævi minnar. Ég lærði jóga á Balí, var kysst af hreindýrum í Lapplandi, ég gæti endalaust talið. Og allt þetta gerði ég ein!“
Hvernig var að ferðast um heiminn ein?
„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hef ég lært meira á lífið á ferðalögum en öll mín ár í skóla. Ég hef lært svo mikla þolinmæði, að treysta á sjálfa mig, sjálfstæði og ef eitthvað bjátar á, sem hefur verið þó nokkuð oft, hef ég lært að vera úrræðagóð. Eins og Stella í orlofi segir: vandamál eru til þess að leysa! Ég hef séð og upplifað ýmislegt á ferðalögum sem varð til þess að ég kann betur að meta lífið og hvað það eru mikil forréttindi að vera Íslendingur. Að eiga allt sem maður á er alls ekki sjálfsagt.
Ég hef oft ferðast með vinum og fjölskyldu en skemmtilegast finnst mér að ferðast ein. Þá er auðveldara að kynnast nýju fólki alls staðar að úr heiminum og ég er alveg sjálfstæð. Maður kynnist miklu betur fólkinu í landinu, menningu þess og siðum. Þegar ég ferðast ein ræð ég líka hvert ferðinni er heitið, hvað ég geri og til dæmis hvar ég borða, og það getur verið sparnaður út af fyrir sig. Ég skal viðurkenna að fjölskyldan var verulega smeyk fyrst þegar ég fór út en eftir því sem ég fór oftar fór sá kvíðahnútur minnkandi.“
Hefur kórónuveiran eitthvað bitnað á þér?
„Já, ég missti vinnuna á Deplar Farm í maí og hef verið atvinnulaus síðan þá. Það hefur ekki stoppað mig því ég ákvað að stofna fyrirtæki og hef verið að vinna í því síðan.“
Hvers konar útivist finnst þér skemmtilegast að stunda?
„Ganga á jökla og fara á brimbretti. Núna er ég að reyna að læra á snjóbretti og það gengur ekki alveg nógu vel.“
Hvað hefur staðið upp úr á ferðaárinu 2020?
„Klárlega að geta ferðast um Ísland og upplifa það á ný án ferðamanna. Ég ákvað til dæmis í sumar að prófa frægu „camper“-bílana og keyra hringinn um Ísland. Ég verð að segja að þessi ferðamáti er mjög sniðugur og ég skil alveg af hverju þetta er svona vinsælt. Ég stefni að því að breyta mínum eigin bíl í „camper“ fyrir næsta sumar.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?
„Skaftafell, Dynjanda og Þjórsárdal.“
Hvert langar þig að fara þegar það verður óhætt að ferðast aftur til útlanda?
„Eins skrítið og það hljómar þá langar mig rosalega mikið til kaldra landa eins og Grænlands, Suður-Kóreu og Japans á snjóbretti eða jafnvel til Suðurskautslandsins.“