Ástralska flugfélagið Qantas hefur verið útnefnt öruggasta flugfélag ársins 2021 á nýbirtum lista Airline Ratings.
Airline Ratings fylgist með 385 flugfélögum hvaðanæva úr heiminum og metur öryggi þeirra, meðal annars út frá fjölda flugslysa og bilana og aldri flugvéla.
„Áskorunin fyrir þetta ár var fjöldi flugfélaga sem eru að fljúga. Þrátt fyrir að 20 efstu félögin hafi enn verið virk var það samt takmarkað,“ sagði ritstjóri Airline Ratings, Goeffrey Thomas, í viðtali við CNN Travel.
Að sögn Thomas er ekki mikill munur á efstu 20 félögunum en það sem skaraði fram úr hjá Qantas var meðal annars mikil endurmenntun flugmanna eftir langt hlé vegna kórónuveirunnar. Flugmenn þurftu að fara á sex daga námskeið áður en þeir sneru aftur til vinnu.
Qantas hefur ítrekað verið efst á lista Airline Ratings frá árinu 2014, en árið 2018 fannst enginn sigurvegari heldur voru 20 efstu flugfélögin metin jafn örugg.
Í öðru sæti er Qatar Airways, því þriðja Air New Zealand, fjórða Singapore Airlines og Emirates í því fimmta.