Vilja koma Havarí í góðar hendur

Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson hafa rekið Havarí síðastliðin …
Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson hafa rekið Havarí síðastliðin ár við góðan orðstír. Ljósmynd/Instagram

Berglind Häsler og eiginmaður hennar Svavar Pétur Eysteinsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló, hafa sett jörðina Karlsstaði í Berufirði á sölu. Um er að ræða 135 hektara jörð en þar af eru 25 hektarar ræktuð tún og matjurtagarðar. Jörðina settu þau á sölu fyrir tveimur árum en gera nú aðra tilraun til að selja gersemina. 

Jörðina keyptu þau hjónin árið 2014 og hafa rekið þar menningarmiðstöðina Havarí, gistiheimili, veitingastað og einnig framleitt Bopp. Í auglýsingunni segir að möguleiki sé á því að hafa reksturinn og vörumerkið inni í kaupunum og því spennandi kaup fyrir þá sem vilja hella sér út í ferðaþjónustuna. 

Havarí er á Karlsstöðum í Berufirði.
Havarí er á Karlsstöðum í Berufirði. Ljósmynd/Facebook

Í samtali við mbl.is segir Berglind að ýmis verkefni í Reykjavík hjá þeim hjónum báðum séu ástæðan fyrir því að þau vilji reyna að selja jörðina. Um þessar mundir búa þau á báðum stöðum, í Reykjavík og í Berufirði, en vegna anna hafa þau verið meira í Reykjavík síðustu misseri. 

Berglind sér ekki fyrir sér að þau muni koma að rekstri Havarís næsta sumar og því vilja þau koma rekstrinum í góðar hendur svo ævintýrin geti haldið áfram að verða að veruleika fyrir austan. 

„Ég er núna að vinna fyrir VG, sem viðburða- og samskiptastjóri fram yfir kosningar í haust, og ætla að einbeita mér að því. Svavar var að skila af sér lagi fyrir leikritið Vertu Úlfur sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 22. janúar og útskrifast úr ljósmyndun í vor, svo sjáum við bara til hvað gerist. Vonandi er einhver sem grípur þetta tækifæri fyrir sumarið því það er náttúrlega hvergi betra að vera,“ segir Berglind.

Berglind Häsler.
Berglind Häsler. Ljósmynd/Facebook

Síðustu sumur hefur fjöldi tónlistarmanna troðið upp á Havarí og dásamleg stemning myndast á tónleikaröðum.

Á jörðinni eru tvö íbúðarhús en annað þeirra er notað sem gistihús. Þar er einnig matvælaframleiðsluhús með kæligeymslu, hostel, veitingahús/samkomusalur og skrifstofa sem hefur verið breytt í hljóðver. Einnig eru eldri útihús, hlaða, fjós og hænsnakofi sem eru ekki í notkun.  

Af fasteignavef mbl.is: Karlsstaðir Berufirði

Prins Póló er að skila af sér lagi fyrir leikritið …
Prins Póló er að skila af sér lagi fyrir leikritið Vertu Úlfur og útskrifast úr ljósmyndunu í vor.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert