„Ég bý á frábærum stað í Nørrebro“

Theódóra Gyrðisdóttir býr í Kaupmannahöfn.
Theódóra Gyrðisdóttir býr í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Theódóra Gyrðisdóttir flutti með vinkonu sinni til Kaupmannahafnar í ágúst í fyrra til að hefja nám í janúar. Námið frestaðist um hálft ár vegna kórónuveirunnar og hefur Theódóra nýtt tímann í að hanna og hekla föt auk þess sem hún starfar sem samfélagsmiðlastjóri fyrir veitingstað. 

„Ég á að vera að fara í KEA í „business and design“ í haust, en núna er ég reyndar að hallast að því að sækja um fatahönnunarnám, en ég ætla að hugsa þetta þangað til og skoða betur,“ segir Theódóra.

„Ég kenndi mér að hekla í byrjun sumars en stundaði það ekkert af viti. Svo þegar ég flutti út þá rakst ég á garn sem ég var mjög hrifin af og byrjaði þar af leiðandi að hekla peysur og vesti á fullu,“ segir Theodóra en hún selur hönnun sína á Instagram og segir það ganga vel. 

Theódóra byrjaði að hekla og hanna þegar hún flutti út.
Theódóra byrjaði að hekla og hanna þegar hún flutti út. Ljósmynd/Aðsend

Finnur þú mun á Íslendingum og Dönum?

„Mér finnst Danir vera aðeins opnari og kannski hvatvísari, maður þarf ekki að plana hittinga langt fram í tímann heldur eru þeir yfirleitt til í að hitta á þig og gera eitthvað skemmtilegt. En aftur á móti geta þeir verið aðeins kassalagðari heldur en við Íslendingar þegar kemur að því að skipuleggja nám og vinnu.“

Hvar býrð þú og er eitthvað hverfi eða borgarhluti í uppáhaldi hjá þér?

„Ég bý á frábærum stað í Nørrebro og það er klárlega uppáhalds hverfið mitt í Köben.“

Thódóra flutti til Kaupmannahafnar með vinkonu sinni.
Thódóra flutti til Kaupmannahafnar með vinkonu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Ég hef ekki mikið verið að fara út að borða í haust út af ástandinu, en ég elska Mother í Ködbyen og svo fer ég á Sushi Nørregade ef mig langar í gott sushi. En ég er með lista yfir helling af stöðum sem mig langar að prófa.“

Skemmtanalífið hefur líka setið á hakanum vegna kórónuveirunnar. 

„Ég hef bara ekki náð að kynnast því almennilega þar sem allt lokaði mjög snemma rétt eftir að ég flutti út í lok sumars en ég fæ vonandi að kynnast því aðeins betur í sumar ef allt gengur vel! En ég hef aðeins náð að kíkja á bari sem eru hérna í nágrenninu og finnst mjög gaman.“

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á líf Theódóru í Köben.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á líf Theódóru í Köben. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi að gera?

„Mér finnst skemmtilegast að kíkja í garðana eins og Kongens Have og Fælledparken og eyða deginum þar.“

Hvernig er draumadagurinn þinn í Kaupmannahöfn?

„Mér finnst best að byrja daginn snemma og fer oftast á kaffihús í hverfinu mínu og er þar að vinna eða hekla. Ég er líka dugleg að rölta um Nørrebro og elska að kíkja á nytjamarkaði og í litlar búðir. Ég eyði flestum kvöldum með herbergisfélögunum mínum og okkur finnst gaman að elda saman og svo kannski kíkja í drykk um helgar.“

View this post on Instagram

A post shared by Theo Gyrdis (@bytheogyrdis)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert