Áhrifavaldi vísað frá Balí

Kristen Gray verður send úr landi.
Kristen Gray verður send úr landi. AFP

Bandaríska áhrifavaldinum Kristen Gray verður gert að yfirgefa indónesísku eyjuna Balí með næsta flugi til Bandaríkjanna eftir að hafa hvatt fólk til að flytja til Balí og segja eyjuna vera vinveitta hinsegin fólki.

Útlendingastofnun Indónesíu fékk ábendingu um samfélagsmiðla Gray eftir að hún hafði greint ítarlega frá lífi sínu á Balí. 

Hún ferðaðist til eyjunnar árið 2019 með kærustunni og lagði upp með að eyða 6 mánuðum þar. Hún segir að þær hafi orðnar ástfangnar af lifnaðarháttum heimamanna og lífinu á Balí og ákveðið að dvelja lengur þar.

Þær hafa starfað í gegnum netið frá Balí og meðal annars gefið út rafræna bók um hvernig þær fluttu til Balí. Gray hefur verið gagnrýnd fyrir að hvetja fólk til að ferðast til Balí í heimsfaraldrinum. 

Gray telur ástæðuna ekki vera að hún hafi hvatt fólk til að ferðast til Balí heimsfaraldrinum heldur fordóma gagnvart hinsegin fólki. Hinsegin samfélagið í Indónesíu stendur völtum fótum þar í landi vegna ofsókna og var meðal annars gerð tilraun til þess að gera samkynhneigð ólöglega í landinu árið 2018. Frumvarpið komst þó ekki í gegnum þingið. 

Gray er með öll sín vegabréfaáritunarmál á hreinu og hefur ekki dvalið lengur á Balí heldur en vegabréfsáritun hennar gildir. Indónesísk stjórnvöld hafa hins vegar staðfest við Coconuts Bali að hún sé grunuð um að hafa brotið lög og að hafa deilt upplýsingum sem gætu farið illa í almenning.

„Ég er ekki sek, ég hef ekki verið lengur en vegabréfsáritun mín gildir. Ég hef ekki hagnast fjárhagslega í Indónesíu. Ég setti fram staðhæfingu um hinsegin samfélagið og það er verið að senda mig úr landi af því ég er hluti af því,“ sagði Gray við BBC. 

Hún mun dvelja á vegum útlendingastofnunar í Denpasar þar til hún verður send með flugi til Bandaríkjanna. 

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert