Ferðamálaráð Nýja-Sjálands hvetur nú ferðalanga til að hugsa út fyrir instagramkassann og hætta að reyna að endurgera myndir í stíl áhrifavalda.
Í skemmtilegu myndbandi sem ráðið sendi frá sér í vikunni hvetur grínistinn Tom Sainsbury ferðalanga til að hætta að ferðast undir áhrifum frá áhrifavöldum.
Í myndbandinu sést Sainsbury góma fólk við að endurskapa áhrifavaldamynd á vinsælum ferðamannastað. Hann skammar þau og segir þeim að skapa eitthvað nýtt fyrir samfélagsmiðla.
„Í fyrsta lagi langar okkur að halda áfram herferð okkar um ferðalög innanlands með því að hvetja landsmenn til að gera eitthvað nýtt á Nýja-Sjálandi. Þetta getur þýtt að prófa einhverja nýja upplifun, en við viljum líka að fólk deili einhverju nýju á samfélagsmiðlum. Við höfum tekið eftir því að sömu myndirnar og færslunar voru alltaf að birtast aftur og aftur. Það er svo margt að gera á Nýja-Sjálandi, ekki bara þetta klassíska sem þú sérð á samfélagsmiðlum,“ sagði Bjoern Spreitzer, yfirmaður innlendra ferðalaga hjá ferðamálaráði Nýja Sjálands, um nýja myndbandið.