Í nóvember hafði Heimir Fannar Hallgrímsson samband við félaga sinn Sigurð Bjarna Sveinsson. Efnið var mögulegur leiðangur á topp Everest. Eftir smáumhugsun ákvað Sigurður að slá til og stefna þeir félagar á toppinn í maí. Það var mikilvægt fyrir þá að láta gott af sér leiða með leiðangrinum en með göngunni safna þeir fé fyrir Umhyggju – félag langveikra barna.
Þeir Sigurður og Heimir eiga það sameiginlegt að hafa átt foreldra sem glímdu við mikil veikindi. Reynslan var mjög krefjandi en um leið hefur hún leitt til þess að þeir vilja láta gott af sér leiða. Þeir höfðu samband við umhyggju og heilluðust af því góða starfi sem félagið vinnur fyrir fjölskyldur langveikra barna.
„Við horfum á þetta þannig að við séum að klífa fjallið með Umhyggju. Ætlum að hleypa þeim inn í og leyfa þeim að taka þátt bæði í undirbúningnum og leiðangrinum. Við ætlum að reyna að virkja fjölskyldur langveikra barna með okkur. Ef langveik börn hafa áhuga á því að senda inn drauma til okkar ætlum við að taka þá með okkur í ferðalagið, lesa þá upp á fallegum stöðum og reyna að taka þá með okkur alla leið upp á topp Everest,“ segir Sigurður.
„Okkur fannst þetta tengjast verkefninu. Þessi vinna og þetta ferli og setja sér markmið, hvort sem það eru veikindi eða eins og í okkar tilfelli fjallaklifur. Það er ekki örugg niðurstaða og það er á brattann að sækja. Maður þarf að hafa fyrir hlutunum. Við töldum að þetta væri spennandi að gera þetta með Umhyggju. Við viljum nálgast þetta á auðmjúkan hátt. Auðvitað er þetta persónulegur leiðangur okkar á Everest og við fullfrískir. Við viljum heldur ekki gera lítið úr þeirra verkefnum og áttum okkur á að þetta er gríðarlega erfitt. En kannski getum við stutt hvert við annað. Kannski getum við hjálpað einhverjum krökkum þannig að þeir tengja við okkar vegferð og við stutt við þeirra baráttu og ef það gefur einhvern byr er það þess virði.“
„Við báðir erum mjög miklir útivistaráhugamenn. Þetta er náttúrlega hæsta fjall í heimi og hefur alltaf verið ákveðinn draumur að koma þarna þó svo að ég tengdi ekki endilega við þann draum í því ferli sem ég hef verið í. En svo fór ég til Nepals fyrir tveimur árum og þar stóð ég á toppi Ama Dablam og horfði yfir á Everest-toppinn. Þá fann ég fyrir löngun til að fara upp. Heimir varð fyrir sambærilegri upplifun hann fór í grunnbúðir Everest með Vilborgu Örnu og Island Peak.“
Sigurður og Heimir kynntust í ferð á Hvannadalshnjúk með Vilborgu Örnu en þar var Sigurður leiðsögumaður. „Það myndaðist strax góð tenging og vinátta. Fljótlega eftir það ákváðum við að fara öll saman á Mont Blanc í Frakklandi. Það gekk alveg rosalega vel fyrir sig. Við eyddum einhverjum tíu dögum saman og félagsskapurinn var frábær. Við náðum vel saman í svona fjalllendi sem skiptir miklu máli.“
Sigurður er ýmsu vanur enda starfar hann sem fjallaleiðsögumaður á Ísland auk þess sem hann er með lítið fjallaklifurfyrirtæki í Slóveníu með félaga sínum. Þrátt fyrir þessa miklu reynslu og góða fjallaform þarf hann að undirbúa sig sérstaklega vel fyrir ferðina.
„Þegar maður fer í svona háfjallaumhverfi flækist undirbúningurinn mikið. Þetta er ekki bara fjallamennskukunnátta sem er þörf á heldur líka ákveðið hugarfar sem skiptir gríðarlega miklu máli. Að undirbúa líkamann og hugann fyrir allar þær breytur sem við getum orðið fyrir til þess að verkefnið geti orðið að veruleika. Það er mjög margþætt. Þetta er flókið í skipulagningu. Við erum að fara sem einkaleiðangur og stýrum okkur sjálfir á fjallinu. Við þurfum að vera með tengingar til að skipuleggja allt úti,“ segir Sigurður sem leggur áherslu á að þeir geti betur tekist á við fjallið sjálft og gert umhverfi sitt öruggara ef hugurinn er á réttum stað.
Toppur Everest er tæplega 8.849 metrar yfir sjávarmáli. Sigurður segið hæðina vera eitt það mest krefjandi við leiðangurinn. Einnig skiptir fólksfjöldi máli og svo skiptir öllu að fá góðan veðurglugga til þess að toppa. Þeir vilja toppa seinna en fyrr en göngufólk hefur lítinn tímaramma til þess að komast á toppinn. Stefnan er sett á 20. til 25. maí en það fer allt eftir veðri segir Sigurður.
Kórónuveirufaraldurinn spilar stórt hlutverk og segir Sigurður að ef að annar þeirra veikist núna séu litlar líkur á því að þeir fari. Þeir fara því mjög varlega, hitta fáa og vanda sig sérstaklega mikið í persónulegum sóttvörnum. Þeir eru einnig í samstarfi við Kerecis sem eru með nef- og munnúða sem veita varnir gegn veirum. Við komuna í Nepals er svo sambærilegt landamæraeftirlit og á Íslandi.
Kórónuveirufaraldurinn hefur þó ekki bara neikvæð áhrif á leiðangurinn. Sigurður segir að fólk á staðnum búist við mun færra fólki en vanalega vegna faraldursins. Það mun hjálpa þeim í leiðangrinum á toppinn.
„Það getur verið stór bót hjá okkur ef við komumst veikindalausir að fjallinu. Það réttlætir þá ákvörðun að fara ekki á næsta ári af því það eru hópar sem hafa verið að setja sér markmið að fara á næsta ári. Það eru hugsanlega tvö ár sem munu leggjast á næsta ár. Þannig getur þetta líka hjálpað okkur á fjallinu ef við komumst þangað veikindalausir.“
Allur ágóði söfnunarinnar rennur óskiptur til félagsins. Á heimasíðu Umhyggju er hægt að leggja málefninu lið. Einnig er hægt að fylgjast með leiðangrinum og stöðu mála á Facebook og Instagram.