Minjagripasala hefur hríðfallið í kórónuveirufaraldrinum en þrátt fyrir það ákvað hótelkeðjan Club Med að rannsaka hvaða minjagripir væru vinsælastir í heiminum.
Þeir sem ferðast til Bandaríkjanna kaupa oftast sælgæti til þess að taka með sér heim en þeir sem hafa heimsótt Kanada kjósa frekar kanadískt síróp.
Þeir sem ferðast sunnar á bóginn velja sér frekar kaffi eða romm til minningar um ferðalagið. Þá kaupa flestir sér vindla á Kúbu. Hengirúm, leðurvörur og skartgripir eru vinsælar vörur í Mið-Ameríku. Þá kaupa margir sér ponsjó í Perú.
Minjagripir í Evrópu eru af mörgum toga. Það er vinsælt að kaupa sér regnhlífar í Bretlandi og legókubba í Danmörku. Þá er súkkulaði mjög vinsælt víða eins og til dæmis í Belgíu, Frakklandi og Írlandi. Þá eru Lettland, Litháen og Pólland vinsæl fyrir skartgripi með rafi.
Þeir sem ferðast til Rússlands eru gjarnir á að kaupa dúkkur. Þá eru grímur vinsælir minjagripir í löndum á borð við Bútan og Srí Lanka. Margir kaupa sér origamipappír í Japan og krydd á Indlandi. En það er te frá Kóreu sem er vinsælasta varan í þessari heimsálfu.
Litríkar textílvörur eru vinsælar hjá þeim sem ferðast til Afríku. Þá eru útskornar tréstyttur einnig vinsælar.
Flestir kaupa sér búmerang í Ástralíu en aðrir kaupa sér „The One Ring“ á Nýja-Sjálandi sem er hringur í anda Lord of the Rings. Þá er hvers kyns skraut unnið úr skeljum mjög vinsælt á þessum slóðum.