Fjölmargir ganga á hæstu tinda Öræfajökuls á vordögum. Algengast er að ganga á jökulinn í maí þegar dagarnir eru langir og bjartir, veðrið orðið betra og oft snjór í sprungum. Jöklagöngur á hæstu tinda Öræfajökuls geta tekið 12-15 klst. og því er mikilvægt að vera í góðu líkamlegu formi og með allan réttan búnað til ferðarinnar. Yfirleitt gengur fólk á jökulinn í fylgd með fararstjórum í ferðafélögum eða ferðaþjónustufyrirtækjum. Hvannadalshnúkur, Sveinstindur, Rótarfjallshnúkur og Dyrhamar hafa í gegnum tíðina verið vinsælir tindar að ganga á. Norðar á jöklinum eru Hrútsfjallstindar og Miðfellstindur sem einnig hafa verið vinsælir tindar að ganga á.
Helsti útbúnaður sem þarf til jöklagöngu eru skór með góðum sóla, mannbroddar, klifurbelti, ísöxi, sólgleraugu, sólaráburður, skjólgóður fatnaður og nesti.
Ferðafélag Íslands hefur lengi staðið fyrir göngum á Hvannadalshnúk um hvítasunnu og leiðangrar þessir hafa notið mikilla vinsælda og hvert ár skipta þeir hundruðum sem sigrast á landsins hæsta fjalli og sjálfum sér um leið. Fleiri ferðafélög og ferðaþjónustuaðilar bjóða einnig upp á jöklagöngur.
Ferðatilhögun er yfirleitt með þeim hætti að þátttakendur koma á eigin bílum í Skaftafell eða Öræfasveit en gangan hefst við bílastæðið við Sandfell snemma að morgni göngudags. Þaðan fetar hópurinn sig upp Sandfellsheiði. Við jökulrönd í um 1.100 metra hæð er hópnum skipt í minni hópa sem ganga eftir það bundnir saman í línu í klifurbeltum. Fremstur í hverri línu fer fararstjóri/fjallaleiðsögumaður. Langabrekka er andlega krefjandi en um leið tilvalin til að fara í innri íhugun og hugleiða. Þegar komið er upp á öskjubrún liggur leiðin þvert yfir öskjuna til norðurs eftir sléttri snjóbreiðu fyrir austan sprungusveim Virkisjökuls sem fellur fram úr öskjunni. Á síðari árum hafa fleiri og fleiri haldið lengra inn á sléttuna áður en leiðin er þveruð yfir á Hnúkinn. Á þessum slóðum mun jökullinn vera um 500 metra þykkur niður á öskjubotn. Í norðurbarmi öskjunnar rís svo Hvannadalshnúkur og er nokkuð bratt upp á hnúkinn sjálfan og þar reynir oftast á notkun brodda og axar og því þurfa þátttakendur að kunna notkun þessa mikilvæga öryggisbúnaðar.