„Draumurinn að flakka á milli þessara stórkostlegu landa“

Ingibjörg segir áhugavert að byrja að skipuleggja ferðalög framtíðarinnar.
Ingibjörg segir áhugavert að byrja að skipuleggja ferðalög framtíðarinnar.

Ingibjörg Lárusdóttir er heimshornaflakkari sem nýtir hvert tækifæri sem gefst til að skoða heiminn. Hún er lögfræðingur og hefur starfað sem slíkur bæði hjá Fangelsismálastofnun ríkisins og hjá Landspítala, þá starfaði hún um 20 ára skeið hjá Icelandair, fyrst sem flugfreyja og síðar sem forstöðumaður.

Ferðaiðnaðurinn hefur alltaf verið hluti af hennar lífi og hefur hún starfað sem fararstjóri víðsvegar um heiminn, meðal annars í Tælandi, Mexíkó, Grikklandi, Svartfjallalandi, Kýpur, Egyptalandi, Ísrael, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og hér á Íslandi.

Börnin elska að vera á Grikklandi enda margt að skoða …
Börnin elska að vera á Grikklandi enda margt að skoða á fallegum slóðum.

Hvað getur þú sagt mér um fyrirtækið Avetravel?

„Sigurður Kristinn Ægisson stofnaði fyrirtækið með vini sínum til að bjóða upp á veiðiferðir innanlands. Anna Margrét Jónsdóttir keypti síðan út hlut félaga Kristins og fór í kjölfarið að bjóða erlendum aðilum sérsniðnar Íslandsferðir. Grikkland er nýjasta rósin í hnappagat Avetravel og bjóðum við eftir sem áður upp á klæðskerasniðnar ferðir og persónulega þjónustu þar sem markmiðið er að skapa ógleymanlega upplifun í samræmi við óskir hvers og eins.“

Anna Margrét og Ingibjörg hafa þekkst um árabil og störfuðu meðal annars saman í Thessaloniki í Grikklandi þegar Icelandair í samstarfi við gríska aðila komu á fót leiguflugi þar í landi.

Draumur Ingibjargar frá 15 ára aldri hefur verið að kynna Grikkland fyrir Íslendingum. Sá draumur rættist við upphaf samstarfs hennar við Avetravel og munu Ingibjörg og sambýlismaður hennar, Vangelis Kyrou sem er frá Piraeus á Grikklandi, aðstoða ferðaþyrsta einstaklinga við að gera draumaferð hvers og eins að veruleika.

Ingibjörg Lárusdóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast.
Ingibjörg Lárusdóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast.

Hvernig ferðir eru þið að bjóða til Grikklands?

„Við bjóðum í raun upp á allt sem hugurinn girnist. Við klæðskerasníðum draumaferðina þína til Grikklands. Hvort sem þig langar að flakka milli sögufrægra staða, hjóla eða ganga um óbyggðir, fara í golf, leigja einbýlishús eða snekkju og sigla milli grískra eyja, upplifa Mamma Mia slóðir eða bara slaka á og láta dekra við þig á dásamlegri heilsulind þá er okkar markmið að koma til móts við þínar óskir í einu og öllu og skapa ógleymanlega upplifun.“

Hvað getur þú sagt mér um tengingar þínar við Grikkland?

„Ég bjó í Grikklandi á unglingsárum ásamt foreldrum mínum og systrum og varð ástfangin af landi og þjóð. Ég tala málið reiprennandi, nýti hvert tækifæri sem gefst til að ferðast þangað og segja má að ég líti á Grikkland sem mitt annað heimaland. Svo var ég auðvitað svo stálheppin að kynnast besta manni í heimi sem vill svo vel til að er frá Grikklandi og elskar Ísland. Við vitum fátt skemmtilegra en að ferðast um bæði íslenska og gríska náttúru, fara í leikhús, tónleika, óperu, fara út að borða, skoða sögufræga staði og kynna okkur sögu og menningu mismunandi þjóða.“

Hvað ætti fólk að vera að gera núna tengt ferðalögum að þínu mati?

„Ég eins og heimsbyggðin öll bind miklar vonir við að bólusetningar skili fljótt þeim árangri að við getum farið að ferðast örugg um allan heim á ný. Grikkland hefur komið vel út úr faraldrinum miðað við önnur Evrópu- og Miðjarðarhafslönd og bæði sú staðreynd auk víðfermis grískrar náttúru tel ég því bera merki þess að Grikkland sé afar góður kostur fyrir sumarfríið í ár. Avetravel býður upp á þjónustu sem gerir þér kleift að velja úr fjölda einbýlishúsa (villa) eða jafnvel þína einkaskútu þar sem þú getur verið ásamt þínum nánustu og siglt milli fámennra eyja áhyggjulaus og út af fyrir þig með þinni “búbblu”.“

Það eru margir Íslendingar sem þrá að fara á ströndina …
Það eru margir Íslendingar sem þrá að fara á ströndina um þessar mundir.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á Grikklandi?

„Þegar stórt er spurt, ég gæti ritað heila bók. En ef ég verð að nefna eitthvað þá er það eyjarnar sem maðurinn minn bauð mér á síðast þegar við vorum í fríi á Grikklandi. Eyjarnar heita Koufonisia og eru lítt þekktar meðal ferðamanna. Ég hef aldrei séð jafn tæran sjó og upplifað jafn mikla rómantík og næði. Stjörnubjartar nætur náðu annarri vídd hreinlega í mínum huga, paradís á jörð eru réttu orðin fyrir þær eyjar. Ég verð að fá að nefna einnig dásamlegu borgirnar mínar, Thessaloniki og Aþenu. Þær eru einstaklega skemmtilegar og hvert sem litið er má sjá fornminjar og söguslóðir. Meira að segja lestarstöðvarnar í Aþenu eru margar eins og safn.“

Hver er besti gistikosturinn og hvaða veitingastað myndir þú mæla með?

„Besti gistikosturinn fer í raun eftir því hverju þú ert að leita að. Grikkland býður upp á svo margt. Sjálf hef ég upplifað Grikkland allt frá því að ferðast með bakpoka og gista í tjaldi á afskekktum ströndum og upp í það að leigja glæsivillu með fjölskyldunni. Rómantískir staðir eru ótal margir og framúrskarandi hótel og auðvitað er alger draumur að leigja skútu og sigla á milli hinna fjölmörgu grísku eyja í góðra vina hópi. Þegar við útbúum ferðir fyrir fólk byrjar vinnan ætíð á samtali, hverju ertu að leita að og svo er farið að skoða og plana. Veitingastaðir á Grikklandi eru geggjaðir sem og grískur matur. Allt frá litlum tavernum í fámennum þorpum þar sem háöldruð amma eða afi eldar hefðbundinn grískan mat upp í framúrskarandi gastronomy meistarakokka og Mitchelin stjörnu veitingastaði. Í uppáhaldi eins og er eru tveir staðir, annar þeirra heitir Zonars sem er einn elsti veitingastaðurinn í Aþenu. Hann var fyrst opnaður árið 1939 og hefur fengið endurnýjun lífdaga og er enn og aftur einn af fremstu veitingastöðum borgarinnar, staðsettur rétt hjá Syndagma torgi. Elegans er það sem einkennir staðinn bæði í mat og drykk. Annar staður í uppáhaldi hjá mér er í Piraeus, hafnarborginni í Aþenu og heitir Beluga. Þar er alltaf mikið líf og geggjaður matur. Það sem ég féll sérstaklega fyrir á þeim stað var að á vissum stöðum á veitingastaðnum er glergól og undir því blasa við fornminjar, sem er algerlega mögnuð sýn. Það er nefnilega þannig að það er varla hægt að stinga niður teskeið í Aþenu öðruvísi en að til þurfi að kalla fornleifafræðinga til að meta verðmæti þess sem finnst. Borgin er eitt stórt fornleifasvæði.“

Hvernig er loftslagið þar og hvenær er best að fara í sólarferðir þangað?

„Þeir segja að á Grikklandi sjái til sólar í um 350 daga á ári svo að það er yfirleitt hægt að sækja í sólina í þessu dásamlega landi. Uppáhaldstíminn minn er frá mars til nóvember þá er gott veður nánast alla daga, en heitasti tími ársins er frá miðjum júlí og fram í miðjan ágúst og því tilvalið að skella sér á eyjarnar ef fólk ferðast á þeim tíma þar sem ferskir vindar kæla mann örlítið. Ég nýt þess reyndar jafnt að fara til Grikklands á veturna sem og á sumrin og er aðventan sem dæmi mjög falleg í Aþenu. Grikkirnir skreyta mikið og er endalaust framboð af tónleikum og öðrum menningarviðburðum. Þá eru orthodox páskarnir nokkuð sem allir ættu að upplifa allavega einu sinni á ævinni.“

Hvenær heldurðu að við getum farið að plana ferðalög til Grikklands aftur?

„Þetta er spurning sem brennur á okkur öllum. Ég vona sem fyrst en það veltur á þáttum sem við ráðum ekki við. Það er þó um að gera að fara að leyfa sér að dreyma, hafa samband við okkur og skoða þá kosti sem við höfum upp á að bjóða.“

Áttu skemmtilega ferðasögu af þér í Grikklandi?

„Ó já, margar. Einna skemmtilegust er sennilega þegar ég kynntist manninum mínum. Ég var að koma úr vinnuferð á skemmtiferðaskipi þar sem skipið lagði í höfn í Piraeus. Ég settist á fallegt kaffihús og fékk mér kaffibolla og var að plana daginn, en framundan var skoðunarferð með hóp Íslendinga um Aþenu. Á næsta borði sat einstaklega huggulegur maður, einnig með kaffibolla. Hann heyrði mig tala grísku við þjóninn og spurði kurteislega hvort ég væri grísk þar sem ég lít ekki beint út fyrir að vera það. Ég sagði honum að ég væri frá Íslandi og þá segir hann mér að hann sé einmitt að kynna sér sögu Íslands í kjölfar þess að hafa horft á þættina Vikings. Við spjölluðum um stund og kvöddumst að því loknu. Svo eins og í nútímaástarsögu fundum við hvort annað á samfélagsmiðlum og töluðum saman í nokkra mánuði og síðan þróaðist það í flakk milli landa um nokkurra mánaða skeið. Hann flutti svo hingað til lands í ágúst árið 2019 og er draumurinn að flakka áfram milli þessara stórkostlegu landa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert